132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Svæðisútvarp á Vesturlandi.

486. mál
[13:08]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa talað um mikilvægi svæðisútvarpanna á landsbyggðinni en svæðisútvörpin hafa líka verið mjög mikilvæg fyrir Ríkisútvarpið sjálft. Það er full ástæða til að menn gefi því gaum.

Það er hins vegar athyglisvert að hæstv. menntamálaráðherra sagði að málin væru eiginlega komin í dróma með frumvarpi um Ríkisútvarpið. Í því frumvarpi er vel að merkja tekið þannig til orða að Ríkisútvarpið skuli reka a.m.k. eina rás. Hvað skyldi það nú þýða? Það þýðir a.m.k. að menn geta látið sér detta í hug að það verði einungis á einni rás. Á grundvelli þess geta menn vart gert ráð fyrir því að tekið verði undir það að bæta við stöðvum um allt land. Ég bið hæstv. menntamálaráðherra að svara því skýrt hvort ætlunin sé að draga úr starfseminni að því leyti.