132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Svæðisútvarp á Vesturlandi.

486. mál
[13:13]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég tel að í frumvarpinu sem liggur fyrir þinginu, um hlutafélagavæðingu RÚV, felist tækifæri til að efla og styrkja Ríkisútvarpið um land allt, m.a. til að koma upp svæðisútvarpi, sé það talin besta leiðina til að tryggja menningar- og almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins, sem skiptir okkur svo miklu máli.

Ég tek undir það með þingheimi að reynslan af svæðisútvörpunum er góð. Ég man að þegar ég var sjálf starfsmaður Ríkisútvarpsins kom ég að því að stofna eitt af svæðisútvörpunum, þ.e. svæðisútvarp Suðurlands. Ég held að það hafi staðið vel fyrir sínu sem og önnur svæðisútvörp. Reynslan af þeim er góð.

Það er líka rétt að ég hef ekki heimild til að segja útvarpinu að fara af stað í rekstur svæðisútvarps á Vesturlandi. Ég hef skoðun á því og tel að svæðisútvörpin hafi eflt menningarhlutverk Ríkisútvarpsins og stuðlað að sátt um rekstur þess. Það hefur ekki alltaf verið sátt um rekstur þess.

En ég vil geta þess, út af orðum hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur, að Ríkisútvarpið hefur ekki alltaf verið svelt. Það er ekki rétt. Mig rekur ekki minni til þess að farið hafi verið fram á aukafjárveitingu vegna stofnunar svæðisútvarpsins á Suðurlandi, svo ég reyni að kafa í eigin reynslubrunn. En skilaboð þingsins til Ríkisútvarpsins virðast skýr. Ég held að það sé bara af hinu góða. Skilaboðin eru þau að Ríkisútvarpið eigi að rækta vel menningarhlutverk sitt. Það getur falist í því að starfrækja svæðisútvarp.