132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Þjónusta svæðisútvarps.

487. mál
[13:22]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þó að hæstv. menntamálaráðherra hafi orðið að melda pass í svörum við þeim fyrirspurnum sem voru lagðar fram þá held ég að það dyljist engum sem á annað borð fylgist með efni Ríkisútvarpsins að svæðisstöðvarnar skipta mjög miklu máli fyrir fréttaöflun inn á fréttastofurnar hér í Reykjavík, bæði Fréttastofu sjónvarps og líka Fréttastofu útvarps. Ég er sannfærður um að fréttir sem koma utan af landi eru nær alltaf gott efni, góðar fréttir sem vekja áhuga og umtal.

Þó að hér sé búið að stofna eins konar borgríki er ansi grunnt í sveitamanninn í öllum Íslendingum og við viljum gjarnan fá fréttir utan af landi, af fólkinu sem þar býr og þeirri lífsbaráttu sem það heyr.

Ég vil svo líka nefna annað sem er mjög mikilvægt til viðbótar við þessi svæðisútvörp en það eru héraðsfréttablöðin. Það þarf að efla þau með einhverjum hætti en það er efni í aðra umræðu.