132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Þjónusta svæðisútvarps.

487. mál
[13:27]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég met það þannig að Ríkisútvarpið hafi frekar kosið að setja það fjármagn sem ellegar færi í eftirlit af því tagi sem hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir er að kalla eftir, þ.e. eftirlit með því hvernig svæðisstöðvarnar sinna hlutverki sínu eins og hv. þingmaður orðaði það, í að styrkja svæðisstöðvarnar sjálfar og reyna að hlúa að þeim. Ég get ekki annað en sagt að í megindráttum eru svæðisútvörpin starfrækt með nokkuð öflugum hætti og svæðisstöðvarnar sinna ákveðinni þjónustu sem er mjög eftirsótt.

Ég er því nokkuð sannfærð um það, um leið og mér þykir það leitt að geta ekki svarað nákvæmlega fyrirspurn hv. þingmanns, að þeim kostnaði sem hlytist af því að halda uppi slíku eftirliti væri betur varið í dagskrárgerð innan Ríkisútvarpsins.

Ég vil einnig vekja athygli á því að á vefnum ruv.is er hægt að nálgast fréttir svæðisstöðvanna en engu að síður er ábending hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar athyglisverð, Ríkisútvarpið gæti hugað að því að leyfa hlustendum um allt land að njóta þess sem kemur fram á svæðisstöðvunum með því að tengjast inni á vefnum hljóðinu líka.