132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Svör við fyrirspurnum.

[13:28]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Í framhaldi af stuttri komu minni áðan ákvað ég að taka upp nýtt mál undir öðrum lið, fundarstjórn forseta, til að vekja athygli á því að í 49. gr. þingskapa segir fyrir um það að ef alþingismaður óskar upplýsinga gerir hann það með fyrirspurn og afhendir hana forseta. Í þingsköpum segir, með leyfi forseta:

„Fyrirspurn skal vera skýr, um afmörkuð atriði og mál sem ráðherra ber ábyrgð á og sé við það miðað að hægt sé að svara henni í stuttu máli.“

Það sem næst gerist er það að forseti ákveður hvort fyrirspurnin skuli leyfð eða ekki. Ég hef aldrei verið forseti en ég geri ráð fyrir því að við þá ákvörðun miði forseti við það sem segir fyrr í 49. gr. um það hvort fyrirspurnin sé skýr, hvort hún sé um afmörkuð atriði, hvort hún sé um mál sem ráðherra beri ábyrgð á og hvort hún sé þannig að hægt sé að svara henni í stuttu máli. Þegar forseti hefur leyft fyrirspurnina er hún send ráðherra.

Ég tel, forseti, að ráðherra hafi ekki heimild til þess samkvæmt þingsköpum að svara síðan ekki fyrirspurninni þegar honum hefur borist hún úr höndum forseta. Ef upplýsingar liggja ekki fyrir eða ef erfitt er að taka þær saman þá tel ég að ráðherra eigi að hafa samband við forseta og þann þingmann sem spyr, skýra frá því og athuga hvernig hægt er að svara fyrirspurninni með fullnægjandi hætti miðað við þá upplýsingastöðu sem fyrir liggur. Þingmaður og forseti gætu líka fallist á að gefinn sé lengri frestur en áskilinn er í þingsköpum, og er yfirleitt ekki fylgt nákvæmlega, vegna þess að verið sé að safna upplýsingum.

Ég vil gera þessa athugasemd í fullri kurteisi og ég vil segja það vegna þess að hér er einn ráðherra á ferð, hæstv. menntamálaráðherra, að þetta er ekki í fyrsta sinn í vetur sem það kemur fyrir að ráðherra svarar í raun og veru engu, annaðhvort í svari sínu við munnlegri eða skriflegri fyrirspurn, án þess að tala við kóng né prest, án þess að láta forseta vita eða þann þingmann sem fyrir þessu verður. Þetta dregur auðvitað úr þessum skemmtilega og fróðlega lið í starfi þingsins og er að mínu viti andstætt þingsköpum.