132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Svör við fyrirspurnum.

[13:32]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég hef ekki rekist á lögfræðilega hugtakið ómöguleika. Hins vegar þekki ég ákaflega fínt lögfræðilegt hugtak sem haft er úr frönsku og er kallað „force majeure“. Vera kann að hér hafi „force majeure“ verið á ferðinni hjá hæstv. menntamálaráðherra. Yfirleitt er átt við náttúruhamfarir, styrjaldir, fráfall eða andlát manna eða þá atburði sem gjörsamlega koma í veg fyrir að hægt sé að fylgja þeim reglum sem áður hafa verið settar og eru í þessu tilviki okkar 49. gr. þingskapa sem eru lög í landinu og leiðbeina okkur þingmönnum um það hvernig við eigum að haga okkur við þingstörfin.

Ég segi ósköp einfaldlega: Svar hæstv. ráðherra menntamála við fyrirspurn hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur í þessu tilviki var ekki sæmandi. Þegar ráðherra fær fyrirspurn úr höndum forseta þingsins sem hefur leyft fyrirspurnina á þeim forsendum sem gert er ráð fyrir í 49. gr. og kemst að því að ekki sé hægt að svara fyrirspurninni með fullnægjandi hætti þá ber honum að hafa samband við forsetann og þingmanninn og skýra frá stöðu málsins og athuga hvernig hægt sé að bæta úr.

Í þessu tilviki er alveg augljóst, úr því að ekki lá fyrir hlutfallsleg niðurstaða sem hægt væri að svara hér, að hægt var að fara fram á það við Ríkisútvarpið, einstaka forstöðumenn svæðisstöðva, fréttastjórann eða útvarpsstjórann, að gefa þó eitthvert mat á því, eitthvert skynmat sem menn auðvitað hafa í kollinum, þeir sem vinna við þessa hluti, hvernig þessu væri háttað. Það var ekki reynt. Þetta virðist hafa verið þannig að ráðherra eða réttara sagt ráðuneytið, ráðuneytisstjórinn eða hver sem um það vélar, sendir þessa fyrirspurn einhverjum starfsmanni sem sendir það Ríkisútvarpinu og Ríkisútvarpið segist ekki hafa þessar tölur, starfsmaðurinn skrifar það niður og síðan er menntamálaráðherra rétt þetta svar sem ekkert er áður en hann fer niður í þing á miðvikudögum. Þetta er ekki sæmandi, því miður. Hæstv. menntamálaráðherra hefur staðið sig vel — ég tek það fram — við að svara fyrirspurnum. Hún fær mjög margar og svarar þeim yfirleitt með fullnægjandi hætti. En þetta er ekki hægt. Ég vek athygli á þessu sérstaklega vegna þess að það hefur gerst oft á þessu þingi að menn hafa hagað sér svona, bæði í svari við munnlegum og skriflegum fyrirspurnum. Ég hvet forseta til að taka þetta upp í forsætisnefnd og við formenn þingflokka.