132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Áfengisauglýsingar í útvarpi.

507. mál
[13:41]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. í 20. gr. áfengislaga, nr. 75/1998, segir, með leyfi forseta:

„Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu.

Með auglýsingu er átt við hvers konar tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, svo sem áfengisvöruheiti eða auðkenni, eftirlíkingar af áfengisvarningi, spjöld eða annar svipaður búnaður, útstillingar, dreifing prentaðs máls og vörusýnishorna og þess háttar.

Bannið tekur með sama hætti til auglýsinga sem eingöngu fela í sér firmanafn og/eða firmamerki áfengisframleiðanda. Þó er framleiðanda sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur heimilt að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja, enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.“

Hæstv. forseti. Þessi lög eru mjög skýr. Engu að síður vitum við að áfengissalar reyna að skjóta sér á bak við lögin og fara fram hjá lögunum, auglýsa bjór, láta þess getið, þó þannig að fáir taki eftir, að ekki sé um áfengan drykk að ræða. En það stríðir gegn orðalagi laganna og anda laganna því þar segir eins og ég áður gat um, að augljóst verði að vera að um óáfenga drykki sé að ræða.

Nú er það svo að fjölmiðlarnir birta áfengisauglýsingar, bæði prentmiðlar og ljósvakamiðlar, og sem betur fer og það er til marks um heiðarleika manna þá hafa þeir viðurkennt að þeir séu að birta áfengisauglýsingar. Það gerði fréttastjóri á Fréttablaðinu í útvarpsþætti föstudaginn 28. október. Þar sagði hann í heyranda hljóði með skýrum og afdráttarlausum hætti að blaðið birti áfengisauglýsingar. Um svipað leyti kom talsmaður auglýsingadeildar sjónvarps fram í sjónvarpsfréttum og baðst afsökunar á því að bjórauglýsingum skyldi hafa verið skotið inn í dagskrá Kastljóss þegar forseti Íslands var þar að ræða um fíkniefnavandann. Talsmaðurinn var spurður hvort þetta hefði raunverulega verið bjórauglýsing. Hann viðurkenndi heiðarlega að í sínum huga hefði svo verið þó strangt til tekið væri ekki svo því með agnarsmáu letri hefði komið fram að bjórinn sem sýndur var hefði verið óáfengur. „Þar liggur minn vandi,“ sagði talsmaður auglýsingadeildar Ríkisútvarpsins. „Ég þurfti að geta réttlætt bann við slíkri auglýsingu gagnvart viðskiptavininum, seljanda bjórsins.“

Þá saknaði ég að spurt væri um skyldur gagnvart áhorfendum. Ef það er nú svo, sem hverju barni má (Forseti hringir.) ljóst vera, að óprúttnir auglýsendur eru að skjóta sér fram hjá lögum með því að auglýsa bjór (Forseti hringir.) en með einhverju sýndarmerki sem á að tákna að þetta sé óáfengur drykkur, eigum við þá ekki að eiga vörn í Ríkisútvarpinu? Hvað hyggst (Forseti hringir.) hæstv. menntamálaráðherra gera til að sjá til þess að landslögum sé framfylgt?

(Forseti (JóhS): Það er nauðsynlegt að hv. þingmenn virði ræðutíma.)