132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Skotveiði og friðland í Guðlaugstungum.

446. mál
[14:03]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Friðlýsing Guðlaugstungna, Svörtutungna og Álfgeirstungna norðvestan Hofsjökuls er í samræmi við náttúruverndaráætlun fyrir árin 2004–2008. Hún var samþykkt á Alþingi vorið 2004. Friðlýsingin er gerð að tillögu Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, með samþykki sveitarfélagsins Bólstaðarhlíðarhrepps, í samræmi við lög um náttúruvernd, nr. 44/1999, en landsvæðið er innan sveitarfélagsins. Friðlýsingin er sú fyrsta af þeim 14 sem eru tilteknar í náttúruverndaráætlun.

Markmiðið með friðlýsingunni er að vernda mjög víðfeðmt og gróskumikið votlendi og eitt stærsta og fjölbreyttasta rústasvæði landsins eins og fyrirspyrjandi réttilega nefndi í fyrirspurn sinni áðan. Svæðið er mikilvægt varp- og beitiland heiðargæsar og hefur því alþjóðlegt náttúruverndargildi. Tilgangur með friðuninni er m.a. að vernda fæðu- og beitarsvæði heiðargæsa en samkvæmt upplýsingum Náttúrufræðistofnunar er nú talið að 10–16 þúsund heiðargæsir nýti þetta svæði.

Umhverfisstofnun hefur það verkefni samkvæmt lögum að undirbúa friðlýsingar en í því felst að hafa samráð við landeigendur og sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta um mörk og friðlýsingarreglur. Í þessu tilviki þótti Umhverfisstofnun ekki ástæða til að leita álits annarra en sveitarstjórnar enda er landsvæðið ekki í einkaeign.

Haldinn var almennur borgarafundur í sveitarfélaginu til að kynna og fjalla um friðlýsinguna áður en gengið var frá friðlýsingarskilmálum og tillögu stofnunarinnar um friðlýsinguna til ráðuneytisins. Það þótti ekki ástæða til að leita eftir sjónarmiðum skotveiðimanna sérstaklega í þessu tilfelli enda var það mjög skýr afstaða sveitarfélagsins að veiðar á svæðinu ættu að vera bannaðar. Í þessu sambandi má líka benda á að það eru fáir vegir á þessu svæði og þeir geta ekki borið mikla umferð. Hins vegar er líka rétt að benda á að vestan við Blöndu eru mjög víðfeðm veiðisvæði með góðu vegakerfi sem þolir mikla umferð veiðimanna á haustin.

Fyrirspyrjandi nefndi sérstaklega að hann teldi að afleiðingarnar af þessu banni yrðu hugsanlega þær að veiðimenn veldu fremur aðrar gæsategundir til að veiða og þá sérstaklega grágæs og blesgæs. Það er alveg hárrétt hjá honum að blesgæsin er í mikilli hættu og það eru einmitt nýjar fréttir af því að á Bretlandseyjum sé stofninn hruninn. Það er því ljóst að þar er greinilega um mjög mikla hættu að ræða. Hvað varðar hins vegar að friðlýsingar hafi þau áhrif almennt að veiðar verði bannaðar, þá vil ég nefna sérstaklega að þegar við höfum fjallað t.d. um Vatnajökulsþjóð þá er gert ráð fyrir því í skýrslu, sem nefnd sem gerði tillögur um þjóðgarð norðan Vatnajökuls skilaði, að leyfðar verði hefðbundnar nytjar í þeim þjóðgarði og þar með gæti að sjálfsögðu talist skotveiði. Friðlýsing þarf því ekki endilega að þýða að hefðbundnar nytjar séu sjálfkrafa bannaðar. Það fer að sjálfsögðu eftir því að hverju friðlýsingin beinist og í þessu tilviki beinist friðlýsingin sérstaklega að því að vernda m.a. varp og beitiland heiðargæsarinnar.