132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Endurgreiðslur öryrkja til Tryggingastofnunar ríkisins.

467. mál
[14:14]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom eru tvær spurningar hv. 2. þm. Reykv. s. þess eðlis að vandkvæði voru á að ná saman þeim gögnum sem til þurfti til að svara þeim. Þeim var því lítillega breytt í samráði við hv. þingmann.

Með lögum nr. 74/2002 var tekið upp nýtt kerfi að því er varðar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Miklir annmarkar voru á gamla kerfinu og eru flestir sammála um að nýja kerfið sé til bóta. Þegar um slíka kerfisbreytingu er að ræða geta komið upp hnökrar á framkvæmdum og gefa þarf nýja kerfinu tíma til að slípast.

Samkvæmt lögum frá 2002 skal Tryggingastofnun ríkisins nú endurreikna og leiðrétta bótagreiðslur til lífeyrisþega þegar álagning skatta liggur fyrir vegna viðkomandi árs. Undanfarin tvö ár hafa slíkir endurreikningar farið fram og hafa komið í ljós umtalsverðar ofgreiðslur og einnig umtalsverðar vangreiðslur. Lífeyrisþegar voru 41.724 á árinu 2003, af þeim áttu 55% inneign vegna vangreiddra bóta. Þeir voru 42.272 á árinu 2004, af þeim áttu liðlega 45% inneign hjá Tryggingastofnun ríkisins. Heildarfjárhæð inneigna árið 2003 var 1.042 millj. kr. en 816 millj. kr. árið 2004. Endurreikningarnir hafa þannig skilað umtalsverðum fjölda lífeyrisþega leiðréttingu á lífeyrisgreiðslum. Inneignirnar eru misháar og var bæði árin oftast um að ræða vangreiðslur sem námu lægri fjárhæð en 20 þús. kr. á árinu.

Við endurreikning hafa einnig komið fram ofgreiðslur á lífeyri eða um 1.034 millj. kr. árið 2003 og 1.808 millj. kr. árið 2004. Ástæða er til að geta þess hér að lífeyrisþegum er gefið tækifæri til að andmæla niðurstöðu endurreiknings og skila inn frekari upplýsingum um tekjur sínar sem getur haft áhrif til lækkunar á endurkröfu lífeyris.

Árið 2003 voru 11.842 einstaklingar með ofgreiðslur en árið 2004 voru þeir 14.908. Á árinu 2003 voru 39% með ofgreiðslur sem námu lægri fjárhæð en 30 þús. kr. á árinu en þetta hlutfall var 47% árið 2004. Árið 2003 benti niðurstaða endurreiknings til þess að um 75% þeirra sem fengu ofgreitt fengju ofgreitt minna en 100 þús. kr. á árinu. Þessi hlutfallstala lækkaði í 65% árið 2004. Árið 2003 fengu um 5% þeirra sem var ofgreitt til hærri ofgreiðslur en 400 þús. kr. Þetta hlutfall hafði nánast tvöfaldast árið 2004 eða 9%. Árið 2003 reiknuðust 99 einstaklingar hafa fengið meira en 800 þús. kr. ofgreiddar en árið 2004 voru þeir 159.

Önnur spurning hv. þingmanns er hvernig háttað sé endurkröfu á hendur þeim sem hafa fengið ofgreiddan lífeyri. Eins og kom fram er það skv. 3. mgr. 50. gr. almannatryggingalaga. Aðalreglan er sú að 20% er dregið af bótum sem einstaklingur síðar kann að öðlast rétt til hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þó er ekki innheimt lægri fjárhæð en 3.000 kr. Undantekning frá 20% reglunni er gerð ef útreikningur sýnir að krafan muni greiðast upp á innan við 11 mánuðum. Þá er kröfunni dreift út árið. Sá sem skuldar 30 þús. kr. greiðir þannig 3.000 kr. á mánuði í 10 mánuði í staðinn fyrir að greiða 20% í 2–3 mánuði. Með þessum hætti er létt á greiðslubyrði þeirra sem skulda minnst.

Ef lífeyrisþegi er með eldri kröfu er alltaf stillt á 20% innheimtu, óháð fyrri samningum og óháð því hversu háar kröfurnar eru. Í undantekningartilvikum er hægt að semja um að breyta fjárhæð mánaðarlegs frádráttar. Samkvæmt reglu um meðferð of- eða vangreiðslna skal að jafnaði miða við að innheimtu ljúki innan 12 mánaða frá því að tilkynnt var um hana. Þetta á ekki síst við um þá sem ekki er hægt að draga af bótum hjá. Ef sérstaklega stendur á er þó heimilt að dreifa innheimtu uppgjörskrafna á allt að þrjú ár. Þessi heimild á aðeins við þegar um mjög háar kröfur er að ræða og viðkomandi hefur litlar tekjur frá öðrum en Tryggingastofnun ríkisins eða býr við sérlega erfiðar fjárhagsaðstæður. Aldrei má dreifa innheimtu á lengri tíma en fimm ár.

Í þriðja lagi er spurt um ábyrgð Tryggingastofnunar ríkisins og lífeyrissjóða en í 47. gr. almannatryggingalaga er lögð skylda á umsækjendur og bótaþega að veita Tryggingastofnun ríkisins allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá er fyrrgreindum einstaklingum skylt að tilkynna Tryggingastofnun ríkisins um breytingar á tekjum sem verða á yfirstandandi tekjuári. (Forseti hringir.) Samkvæmt lagaákvæði þessu hvílir skyldan á öryrkjanum sjálfum.

Virðulegi forseti. Ég verð að svara síðustu spurningunni í seinni ræðu minni.