132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Endurgreiðslur öryrkja til Tryggingastofnunar ríkisins.

467. mál
[14:21]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil minna á að þessi löggjöf sem Tryggingastofnun starfar eftir var samþykkt á Alþingi með, eftir því sem ég best veit, samþykki allra viðstaddra þingmanna. Ég veit ekki annað en að fullkomin samstaða hafi verið um það kerfi sem stofnuninni er ætlað að starfa eftir og menn hafa sett til að ákvarða bætur einstakra lífeyrisþega.

Eins og kom fram í svari hæstv. ráðherra hefur kerfið það í för með sér að ákvarða bætur til bráðabirgða sem síðar verða endanlega ákvarðaðar þegar tekjur liggja fyrir. Það er mikið um ofgreiðslur og mikið um vangreiðslur, um 75% lífeyrisþega eru ýmist að fá of mikið eða of lítið. Þetta þýðir að stofnunin þarf að senda út 30–40 þúsund bréf oft á ári ef þessu heldur áfram. Ég held því að menn verði að setjast niður til að endurskoða kerfið. Þar kemur aðeins tvennt til greina, annars vegar að ákvarða bæturnar eftir á, rétt eins og barnabætur eða vaxtabætur, eða ákvarða bótaréttinn óháð tekjutengingum þannig að hann sé endanlegur og verði ekki tekinn upp þegar fyrir liggja tekjur.