132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Endurgreiðslur öryrkja til Tryggingastofnunar ríkisins.

467. mál
[14:25]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Það er auðvitað eitthvað mjög mikið að í þessu kerfi, samkvæmt þeim tölum sem hæstv. ráðherra setur fram, þegar um 75% lífeyrisþega þurfa að sæta því að fá annaðhvort ofgreiðslu eða vangreiðslu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, sem var bara um öryrkjana, þá er um að ræða mjög háar fjárhæðir.

Hæstv. ráðherra nefndi að í mörgum tilfellum væri um að ræða tölur sem skiptu hundruðum þúsunda króna og yfir eina milljón. Í þeim tölum sem ég hef er um að ræða 914 millj. kr. í kröfur bara á öryrkjana á árinu 2004 og yfir 1.400 þurftu að greiða meira en 400 þús. kr. til baka og þó nokkur fjöldi yfir eina milljón. Ráðherrann verður auðvitað að taka á þessu máli. Við þetta er ekki hægt að búa.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er það með stoð í lögum þau 25% sem öryrkjarnir mega halda eftir? Ég sé að þetta er í reglugerð hjá ráðherranum, 11. gr. í reglugerð um endurreikninga og uppgjör, en hefur þetta stoð í lögum? Er ráðherrann ekki tilbúinn að hækka þetta viðmið um 20%? Ég nefndi almenna markaðinn þar sem launþegar halda eftir 25% þegar um er að ræða að þeir skuldi ríkinu vegna opinberra gjalda. Þessu verður líka að breyta.

Ég spyr um afskriftareglurnar. Þarf ekki að skoða það að koma upp sérstökum afskriftareglum núna varðandi þetta sem gengið hefur yfir lífeyrisþegana? Það er ekki hægt að búa við það að í heil fimm ár þurfi þeir að lifa á kannski 20 þús. kr. á mánuði. Ég spurði ráðherrann líka um skerðingarhlutföllin. Á ekki að breyta þeim? Við samfylkingarmenn höfum lagt fram þingsályktunartillögu um afkomutryggingu þar sem við leggjum m.a. til að rýmka skerðingarhlutföll grunnlífeyris og tekjutrygginga verulega til að auka svigrúm til atvinnuþátttöku. Það er m.a. ein afleiðing af því sem við stöndum frammi fyrir núna að öryrkjarnir þurfa að greiða til baka. Ég spyr ráðherra: Hvað er verið að vinna í því efni? Það er nauðsynlegt að fá þetta fram og taka á þessu máli. (Forseti hringir.) Lífeyrisþegarnir geta ekki búið við þetta kerfi eins og það hefur verið á undanförnum missirum.