132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Öldrunarþjónusta í Hafnarfirði.

479. mál
[14:36]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Það er vel við hæfi að þessi spurning skuli tekin fyrir í dag. Í vikunni voru kynntar hugmyndir hæstv. heilbrigðisráðherra um hvernig eigi að standa að uppbyggingu öldrunarþjónustu í Hafnarfirði. Ég vil óska hæstv. heilbrigðisráðherra til hamingju með þessar hugmyndir því að þær hafa ferskan blæ. Þar eru hugmyndir sem hafa verið í umræðunni meðal manna, meðal fagaðila og meðal aldraðra en hafa í raun ekki verið útfærðar með þessum hætti fyrr. Ég vil óska hæstv. heilbrigðisráðherra til hamingju með þessar hugmyndir og vona að þeim verði hrint í framkvæmd sem allra fyrst.

Meginatriði skýrslunnar lúta að samþættingu á hjúkrunar- og félagsþjónustu, hvíldarinnlögnum og jafnframt upplýsinga- og ráðgjafarþjónustu fyrir aldraða. Sá aldurshópur, og reyndar flestir sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, verða dálítið ráðvilltir þegar þeir standa frammi fyrir því að taka ákvarðanir sem varða heilbrigði þeirra. Þetta er því mjög til bóta.