132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Öldrunarþjónusta í Hafnarfirði.

479. mál
[14:38]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir jákvæðar umræður um þetta mál og endurtek þakkir til þeirra sem unnu að skýrslunni. Starfið var til fyrirmyndar, samstarf heimamanna og ráðuneytisins. Skýrslan er, ef hv. þingmenn kynna sér hana, mjög góð handbók, sérstaklega um heimaþjónustuna. Það besta við hana er að hún byggir á traustum grunni, byggir á könnunum og samtölum við eldra fólk í Hafnarfirði. Þar kom fram sá eindregni vilji þeirra að vera sem lengst heima í sínu umhverfi. Þeim verður gert það kleift með eflingu þjónustu, sem að hluta til er á hendi sveitarfélagsins og að hluta á hendi ríkisins, þ.e. sérstaklega heimahjúkrunin.

Þetta rímar við sjónarmið forustumanna eldri borgara. Þeir hafa hvatt til að vinna á þeim nótum að fólk geti verið sem lengst heima í sínu umhverfi þótt vissulega útrými það ekki þörfinni á hjúkrunarrýmum eða rýmum fyrir þá sem þurfa mikla hjúkrun eða sólarhringshjúkrun. En þetta er sá farvegur sem ég tel að við eigum að vinna í.