132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Barnaklám á netinu.

506. mál
[14:41]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sandra Franks) (Sf):

Virðulegi forseti. Barnaklám af hvaða tagi sem er er yfirleitt framhliðin á vísvitandi og óafsakanlegum glæpum gagnvart börnum. Við heyrum daglegar fregnir af barnaklámi á netinu og fáum blandast hugur um að möguleikar nýrrar tækni hafa stóraukið umsvif glæpamanna sem misnota saklaus börn til að auðgast. Til marks um það nefni ég að Barnaheillum hafa borist ógrynni ábendinga um barnaklámssíður á netinu.

Oftar en ekki er um að ræða börn úr ríkjum þriðja heimsins, sem búa við litlar varnir af hálfu stjórnvalda í löndum sínum og hefur í sumum tilvikum verið rænt eða þau beinlínis verið seld til að svala hvötum barnaníðinga.

Stjórnvöld hér á landi hafa vissulega gripið til varna. Alþingi hefur sett ákvæði í hegningarlög sem bannar fólki hér á landi að hlaða niður barnaklámi á tölvur sínar. Það er beinlínis refsivert að skoða slíkt efni á tölvu sinni. Síðan þau lög voru sett hefur sigið hratt á ógæfuhliðina í þessum efnum en sem betur fer hefur tæknin gefið nýja möguleika til að sporna gegn glæpum af þessu tagi.

Á nýlegri ráðstefnu Barnaheilla kom fram að tæknilega er hægt að taka upp sérstakar netsíur sem mundu hindra aðgang Íslendinga að vefsvæðum sem innihalda barnaklám. Norðmenn hafa tekið upp netsíur í þeim tilgangi. Mér finnst þetta athyglisvert og er þeirrar skoðunar að íslensk stjórnvöld eigi að gera slíkt hið sama.

Ég vil undirstrika að ég aðhyllist sem grundvallarreglu að ríkið og hið opinbera eigi að hafa sem allra minnst afskipti af persónulegum högum og einkalífi fólks. Í þessu tilviki er ég þó þeirrar skoðunar að réttlætanlegt sé að ríkið grípi inn í með þessum hætti. Afstaða mín byggist á því að óhjákvæmilegt sé að líta svo á að notendur barnakláms séu þátttakendur í þeim glæpum sem eru forsendan fyrir framleiðslu þess. Þeir eiga því aðild að kynferðisbrotum gegn börnum þótt þau fari fram annars staðar í heiminum. Ég tel að það felist svo ríkir hagsmunir í því að stöðva þau brot að það réttlæti fyllilega að ríkið grípi til aðgerða af þessu tagi til að hindra þau. Ég hef því leyft mér að leggja fram fyrirspurn til míns kæra hæstv. dómsmálaráðherra um þetta:

Telur ráðherra að unnt sé að grípa til annarra löglegra ráða en nú er gert til að koma í veg fyrir skoðun barnakláms á netinu hér á landi, t.d. að setja upp netsíur sem hindra slíkt?