132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Barnaklám á netinu.

506. mál
[14:44]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hlý orð í minn garð og fyrir að vekja máls á þessu. Í mínum huga er mikilvægt að leitað verði allra leiða til að stemma stigu við ófögnuði af þessum toga. Vandamálið er flókið sökum þess að tækninni fleygir ört fram á þessu sviði og netið á sér engin landamæri eins og kunnugt er. Þá þarf að huga að lagalegum atriðum í þessu sambandi.

Lögreglan, undir forustu embættis ríkislögreglustjóra, hefur kannað ýmsar leiðir í þessum efnum og m.a. kynnt sér hvað lögregluyfirvöld í nágrannalöndum okkar hafa gert. Lögreglan hefur einnig átt gott samstarf við Barnaheill um þessi mál, m.a. í tengslum við ráðstefnu sem hv. fyrirspyrjandi nefndi. En hún var haldin í síðasta mánuði.

Það er rétt, sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, að norsk lögregluyfirvöld hafa náð góðri samvinnu við internetfyrirtæki í því skyni að heft útbreiðslu barnakláms. Það felst m.a. í því að þegar menn reyna að fara inn á þekktar barnaklámssíður koma upp skilaboð frá internetfyrirtækinu um að aðgangur að viðkomandi síðu sé lokaður að beiðni lögreglu, hvort sem menn reyna að komast þar inn með efni eða reyna að opna þær síður. Viðkomandi er bent á að hafa samband við lögreglu ef hann telji að aðgangi að síðu sé ranglega lokað.

Lögreglan hefur óskað eftir samstarfi við internetfyrirtæki hér á landi í því skyni að kom upp netsíum af þessum toga sem komi í veg fyrir að viðskiptavinir geti skoðað vefsíður sem innihalda barnaklám. Allir þættir þess máls eru til skoðunar, m.a. það sem snýr að vernd persónuupplýsinga og öðrum lagalegum þáttum. Vonast er til að samstarfið verði að veruleika á næstu vikum eða mánuðum.

Þá er í dómsmálaráðuneytinu unnið að lagabreytingum til að íslenska ríkið geti uppfyllt skuldbindingar sínar á grundvelli samnings Evrópuráðsins um tölvubrot, frá 23. maí árið 2001. En Ísland undirritaði þann samning í nóvember 2001. Með samningnum er leitast við að móta sameiginlega stefnu við mótun refsilöggjafar sem hafi að markmiði að veita borgurunum refsivernd gegn ólögmætri háttsemi sem drýgð er með notkun upplýsingatækni, þ.e. netinu. Það yrði gert með því að setja viðeigandi löggjöf og auka alþjóðlega samvinnu á þessu sviði. Markmið samningsins er:

1. Að samræma almenn efnisskilyrði í refsilöggjöf og tengdri löggjöf að landsrétti á sviði tölvubrota.

2. Að innleiða nauðsynlegar réttarfarsreglur svo hægt sé að rannsaka og saksækja einstaklinga fyrir slík afbrot auk annarra afbrota sem framin eru í gegnum tölvukerfi eða með rafrænum hætti.

3. Að setja á laggirnar skilvirkt og fljótvirkt kerfi alþjóðlegrar samvinnu á þessu sviði.

Í samningnum eru m.a. ákvæði er varða barnaklám. Gert er ráð fyrir nýju úrræði við rannsókn sakamála vegna brota sem framin eru með atbeina upplýsingatækni. Það tekur mið af hættu á því að tölvugögnum sem hafa að geyma sönnun fyrir broti verði spillt eða breytt. Þessi ákvæði samningsins kalla á lagabreytingar hér á landi. Ég stefni að því að leggja fram á yfirstandandi þingi frumvarp þar sem mælt verði fyrir um nauðsynlegar lagabreytingar til að íslenska ríkið geti uppfyllt skuldbindingar sínar á grundvelli þess samnings.

Þá vil ég einnig minna á að á síðasta þingi, síðasta ári, voru miklar umræður í þinginu um frumvarp sem samgönguráðherra flutti á þeim tíma. Það gerði ráð fyrir skráningu á IP-númerum, eins og þingmenn muna væntanlega. Það mætti nokkurri andstöðu í þinginu en náði engu að síður fram að ganga og samþykkt þess frumvarps, sem nú er orðið að lögum, auðveldar einnig eftirlit af þessu tagi.