132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Barnaklám á netinu.

506. mál
[14:52]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil gjarnan taka til máls um þá ágætu fyrirspurn sem hér er borin fram. Það er þyngra en tárum taki að við skulum þurfa að afbera barnaklám á netinu. Okkur ber skylda til þess, bæði stjórnmálamönnum, lögreglu og öllum sem geta lagt hönd á plóg, að hafna barnaklámi. Þetta er ein ógeðfelldasta birting á mannlegu eðli sem hugsast getur. Ég vil sérstaklega fagna því sem kom fram hjá hæstv. dómsmálaráðherra að hann muni taka upp einhvers konar samstarf um netsíur. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að lögreglan fái ábendingar frá öllum þeim sem verða varir við barnaklám á netinu. Það er geysilega mikilvægt að við tökum á þessu með eins harkalegum hætti og hægt er án þess að ganga á vernd fólks samkvæmt stjórnarskrá o.s.frv. Barnaklám er svo alvarlegur hlutur að við eigum algerlega að hafna því í öllu birtingarformi.