132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Barnaklám á netinu.

506. mál
[14:53]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Aldrei þessu vant verð ég að taka undir lofsyrði þingmanna um hæstv. dómsmálaráðherra. Þau svör sem hann veitti voru ákaflega skýr. Ég fagna því að hæstv. ráðherra sé með virkum hætti að íhuga það og reyndar að hrinda í framkvæmd, heyrðist mér, að taka upp netsíur til að varna því að menn geti notað barnaklám á netinu. Sérhver einstaklingur sem gerir það er um leið þátttakandi í glæp.

Ég er sjálfur nýkominn frá Afríkuríki þar sem lítil lög virtust í framkvæmd og þar sem stjórnvöld höfðu séð sig tilneydd til að fara í opinbera herferð gegn erlendum barnaníðingum sem beinlínis komu til landsins í þeim tilgangi að taka upp barnaklám til að selja annars staðar. Það eru börn í þriðja heiminum sem verða verst úti og við þurfum af öllum þeim krafti sem við getum að taka þátt í að útrýma þessu. Ég fagna bæði frumkvæði hv. þingmanns og svörum hæstv. ráðherra.