132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Viðhald vega.

488. mál
[15:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir þau svör sem hann veitti hér. Vissulega er verið að auka viðhaldsfé smám saman en ég hef áhyggjur af því að ekki sé nóg að gert. Ég held að við þurfum líka að fara í að breikka vegina. Þeir eru víða of mjóir. Við erum reyndar með í notkun tiltölulega nýja vegi sem eru allt of mjóir miðað við þá umferð sem á þeim er, ég get t.d. tekið Þverárfjallsveg en fyrri hluti hans, sá hluti sem lokið er, er einum metra mjórri en seinni hlutinn á að vera, sem segir sína sögu um vanmat á umferðinni sem á veginum er. Fyrir utan það að fé til viðhalds vega er vanáætlað, að ég tel, þá eigum við óhemjulega mikið eftir í vegagerð á landinu áður en við getum talað um að við séum með nútímalega vegi.

Ég ætla að taka Vestfirðina sem dæmi enn og aftur því að það er sá hluti landsins sem á langlengst í land með vegagerð. Það er í rauninni alveg hræðilegt hve Vestfirðingar hafa verið settir aftarlega á merina í þessu efni og hversu langt á að líða þangað til þeir verða komnir í það sem ég vil kalla mannsæmandi vegasamband við aðra hluta landsins. Þetta stendur þeim auðvitað fyrir þrifum. Jafnframt því að byggja ekki upp vegina þar þá höldum við þeim heldur ekki nógu vel við.