132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Viðhald vega.

488. mál
[15:11]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er misskilningur hjá hv. þingmönnum að vegirnir séu ekki byggðir í dag fyrir þann þungaflutning sem á að fara um þá. Það er bara þannig að allt eyðist allt sem af er tekið, eins og þar stendur, og álag á vegina, eins og álag á alla aðra hluti, leiðir til þess að það þarf að viðhalda þeim. Í dag eru allir vegir byggðir upp miðað við að þeir þoli fyrrnefndan ásþunga við eðlilegar aðstæður en síðan þarf, eins og ég gat um áðan, að taka tillit til aðstæðna í veðurfari, þegar frost er að fara úr jörðu þarf að setja þungatakmarkanir til að verja yfirlag veganna, hið bundna slitlag ekki síst. Í dag er miðað við Evrópustaðal, ásþungann 11,5 tonn í hönnun veganna þannig að nýbyggðir vegir í dag eiga að þola þá umferð sem á þá er lögð.

Ef við tökum Reykjanesbrautina sem dæmi. Hún er byggð upp með tveimur akreinum í hvora akstursstefnu. Þar eru auðvitað ýtrustu staðlar, bæði hvað varðar álag á vegakerfið og öryggisstaðlar. Sama gildir um þá vegi sem verið er að byggja upp alls staðar úti um landið, notaðir eru tilteknir staðlar til að ákvarða breidd vegar og þar er umferðarmagn áætlað. Á síðasta kjörtímabili var tekin ákvörðun um að breikka þá vegi sem mesta umferðin er um og eftir þeirri ákvörðun er unnið í dag. Allt horfir þetta því til stórlega betri vegar.