132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Þróun skattprósentu.

454. mál
[15:26]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Enn er Sjálfstæðisflokkurinn að reyna að snúa sig út úr skattaumræðunni. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin hér, en síðustu daga höfum við fylgst í Kastljósi með stjórnendum þar reyna að átta sig á því hvort skattar í landinu hafi hækkað eða lækkað. Í gærkvöldi heyrðum við Jóhönnu Vilhjálmsdóttur fara yfir þau mál og komast að þeirri sömu niðurstöðu og við höfum kynnt í stjórnarandstöðunni, að þeir hafa hækkað á lægst launaða fólkið en lækkað á hæst launaða fólkið. Það er núna þannig að lægst launaða fólkið greiðir heil mánaðarlaun í skatta á ári umfram það sem það gerði þegar þessi ríkisstjórn hóf störf. Við, hæst launaða fólkið, greiðum fast að mánaðarlaununum minna.

Ég vil einfaldlega spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé ekki fullkomlega sammála þessum salómonsdómi um það hvort skattar hafi hækkað eða lækkað, þ.e. að þeir hafi lækkað á okkur, hinum tekjuhæstu, (Forseti hringir.) en hækkað á efnaminnsta og tekjuminnsta fólkið í samfélaginu.