132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Þróun skattprósentu.

454. mál
[15:30]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Þeir eru svekktir og þeir eru sveittir. Þeir strita við að reyna að telja fólki trú um að það hafi það lakara í dag en fyrir 10 árum. Ef við skoðum skoðanakannanir benda þær ekki beinlínis til þess að hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafi haft eitthvað upp úr krafsinu. (Gripið fram í: Skoðanakannanir ...) Nei, það er rétt, hv. þingmaður, skoðanakannanir eru auðvitað ekki kosningar, en ég held að það sé engin ástæða fyrir a.m.k. Sjálfstæðisflokkinn að hafa neinar áhyggjur eins og staðan er í dag.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmenn vildu láta skattleggja sig eftir reglunum frá 1994 eða reglunum frá 1995. (Gripið fram í: Það fer eftir því hvað maður er með í laun.) Alveg sama hvaða laun hv. þingmaður er að tala um, nákvæmlega sama hvaða laun hann er að tala um, ef hann væri skattlagður eftir sömu reglum í dag og giltu 1994 eða 1995 borgaði hann miklu hærri skatta. Það er augljóst mál. Jafnvel þótt hann færi út í reiknikúnstir borgaði hann lægri skatta þegar neysluverðsvísitalan er tekin með í reikninginn. Jafnvel þótt hann tæki launavísitöluna í reikninginn væri hv. þingmaður líka að borga lægri skatta.

Hins vegar eru reiknikúnstirnar ekki það sem skiptir máli í þessu. Þær mæla heldur ekki hvaða áhrif breytingarnar hafa á skattana sem einstaklingar borga. Það sást mjög greinilega á þeim tölum sem sýndar voru í Kastljósinu í gær að skattar á allar þær tölur hafa lækkað, skattar á laun frá 1994 eða 1995 til dagsins í dag hafa lækkað. Hv. þingmaður getur haldið áfram að (Forseti hringir.) svitna og svekkja sig á umræðunni en hann mun ekkert komast áfram með hana. (Gripið fram í: Þetta er rangt.)