132. löggjafarþing — 68. fundur,  15. feb. 2006.

Tenging Sundabrautar við Grafarvog.

[15:45]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil nota þetta tækifæri og leyfa mér að hvetja Sjálfstæðisflokkinn til að fela hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni forustu í samgöngumálum. Það er lýsandi fyrir vegleysu Sjálfstæðisflokksins í samgöngumálum að hér þarf varaformaður þingflokksins að koma upp til að spyrja samgönguráðherra flokksins sjálfs hvar hann sé eiginlega á vegi staddur í málefnum Sundabrautarinnar — hvar, hvernig og hvenær hann hyggist leggja þessa braut sem hann hefur verið að tala um frá því á síðari hluta síðustu aldar og velkjast með og aldrei vitað hvað hann ætti að gera við. (Gripið fram í.) Hann hefur ekki einu sinni vitað hvernig hann ætti að fjármagna hana því að hann velktist milli einkaframkvæmdar og opinberrar framkvæmdar þangað til hæstv. forsætisráðherra sýndi þá rögg að tryggja verkefninu fjármögnun og það er honum að þakka að það er þó alla vega komið á einhvern rekspöl.

Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir hans málefnalegu ábendingar um það hvernig standa megi betur að legu brautarinnar en ég bið hann þess lengstra orða að rugla nú ekki samgönguráðherra frekar í ríminu því að ég er hræddur um að það geti orðið til þess að tefja verkefnið frekar. Ég bið hann þó einkum að leggja ekki til neinar leiðir sem gætu aukið kostnaðinn frá lágmarkskostnaði, því að það sem hefur alltaf staðið þessu verkefni fyrir þrifum er Reykjavíkurstefna samgönguráðherra, sem er borgarbúum fjandsamleg. Sú stefna gengur út á það að ef eitthvað er gert hér í samgöngumálum sem kostar krónu umfram lágmarkið þá eigi Reykvíkingar að borga það sérstaklega. Slíkar kröfur hefur samgönguráðherra aldrei haft uppi við önnur sveitarfélög þó að þar hafi verið gerðar slaufur eða göng eða brýr eða hvað það nú er til þess að koma til móts við óskir íbúanna (Forseti hringir.) en sú krafa er gerð í Reykjavíkurfjandsamlegri samgöngustefnu ráðherrans að Reykvíkingar borgi sérstaklega fyrir allt sem hér þarf að gera umfram lágmarksþarfir. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Ég hvet sem sagt til þess að hv. málshefjandi hafi forustu um þessi mál.

(Forseti (DrH): Ég bið hv. þingmenn að virða ræðutíma.)