132. löggjafarþing — 68. fundur,  15. feb. 2006.

Tenging Sundabrautar við Grafarvog.

[15:49]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Sundabrautin er eitt allra mikilsverðasta samgöngumannvirki sem ráðast þarf í og í höfuðborgarstefnu Framsóknarflokksins, sem var samþykkt á síðasta flokksþingi, er hún sett í forgang um samgöngubætur. Samgönguáætlun, sem samþykkt var á síðasta þingi, gerði ekki ráð fyrir fjármagni til framkvæmda við Sundabraut og því höfðum við þingmenn flokksins þann fyrirvara við samþykkt áætlunarinnar að tryggt væri að fjármagn kæmi til Sundabrautar við ráðstöfun andvirðis Landssímans.

Þeir átta milljarðar kr. sem ríkisstjórnin ákvað að setja í lagningu Sundabrautar voru ekki skilyrtir við innri leiðina eins og umræðan snerist um í upphafi því að hæstv. forsætisráðherra lagði auðvitað áherslu á þarfir íbúanna auk hagkvæmninnar. Það er unnið að því núna að leita lausna um tengingu inn í íbúðahverfi í báða enda og nú er að hefjast það samráðsferli sem umhverfisráðherra lagði fyrir framkvæmdaraðila í úrskurði sínum, sem gekk núna fyrst í nóvembermánuði sl., og þá setjast niður samkvæmt úrskurðinum fulltrúar íbúa báðum megin, fulltrúar Faxaflóahafnar, Vegagerðarinnar og skipulagssviðs borgarinnar. Ég tel að þetta sé staðan í málinu nú og að lokinni þeirri vinnu og að fengnu því samráði sé fyrst hægt að taka endanlegar ákvarðanir og ráðast í hönnun og framkvæmdir í framhaldi af því.