132. löggjafarþing — 68. fundur,  15. feb. 2006.

Tenging Sundabrautar við Grafarvog.

[15:53]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þessi umræða sem hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugur Þ. Þórðarson, óskaði eftir ber yfirskriftina: Tenging Sundabrautar við Grafarvog. Þetta segir svolítið um umræðuna um Sundabraut, um það hvernig þingmenn Sjálfstæðisflokksins virðast líta á Sundabraut sem einhvers konar húsagötu í Reykjavík eða botnlanga upp í Grafarvog og ríkisstjórnin virðist hafa þetta músarholusjónarmið líka. Hún setti símapeninga í helminginn af verkefninu. Svo á að gera afganginn einhvern veginn einhvern tíma með einkafjármögnun, veggjaldi eða skuggagjöldum, enginn veit hvað. Forsætisráðherra segir eitt, hann talar um veggjald, samgönguráðherra segir annað, hann talar um skuggagjöld. Hvar er stefnan, hver er hún eiginlega? Hvað ætla menn að gera þarna?

Í þessu máli þarf auðvitað heildarstefnu um að ljúka verkefninu í tímasettum áföngum. Sundabraut er ekki botnlangi upp í Grafarvog, hún er allt of dýr framkvæmd til að tenging hennar upp á Kjalarnes geti beðið árum saman. Sundabraut á að tengja saman landshluta og það á auðvitað að gera í tímasettum áföngum. Það liggur á að ná tengingu alla leið upp á Kjalarnes og í beinu framhaldi af því að auka afköst Hvalfjarðarganga og vegarins alla leið upp í Borgarnes.

Hver er eiginlega framtíðarsýn stjórnvalda í þessu máli? Finnst ríkisstjórninni eins og hv. frummælanda hér að Sundabrautin sé botnlangi upp í Grafarvog eða hvað er það eiginlega sem menn ætla sér? Ætla menn ekki að nýta það fjármagn sem verður sett í fyrri áfanga Sundabrautar betur en það að láta seinni helminginn hanga í lausu lofti? Það verður að gera kröfu um það að ríkisstjórnin komi með einhverja stefnu í þessu máli og það verði heildarstefna um það hvernig eigi að tengja Vestur- og Norðurland (Forseti hringir.) við höfuðborgarsvæðið.