132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[11:05]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að framtíðarsýn mín hafi komið fram með þokkalegum glöggum hætti í ræðu minni. Ég sé fyrir mér að sveitarfélögin haldi áfram að sameinast. Þau haldi áfram að stækka. Þau verða að halda áfram að stækka. Til að geta veitt íbúum sínum þá þjónustu sem mælt er um fyrir í lögum og íbúarnir gera kröfur um verða sveitarfélögin að halda áfram að stækka.

Ég sé sömuleiðis fyrir mér, hæstv. forseti, að það kunni að koma til þess að menn verði að fara þá leið sem ég ýjaði að í ræðu minni, að hin minni sveitarfélög verði einfaldlega að kaupa þjónustuna af hinum stærri fyrir íbúa sína. Vegna þess að íbúarnir eiga kröfu til þess að njóta þeirrar þjónustu sem lög kveða á um hversu stórt sem sveitarfélagið er.