132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[11:06]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að sveitarfélögin verða að halda áfram að stækka. Það hefur sýnt sig á undanförnum árum þegar við skoðum þróunina að það er aðallega tvennt sem hefur flýtt fyrir því að sveitarfélög hafa stækkað og þeim fækkað þar af leiðandi um leið. Þegar gert er sérstakt átak í þá veru hefur sveitarfélögum fækkað í kjölfar þess og það er augljóslega að gerast núna eins og það gerðist eftir síðasta átak. En síðan hefur það einnig gerst þegar verkefni hafa verið flutt yfir til sveitarfélaganna og besta dæmið er þegar grunnskólinn var fluttur yfir. Því er eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki reiðubúinn að skoða það í fyllstu alvöru að finna eitt verkefni eða fleiri sem rétt væri að færa yfir til sveitarfélaganna, hreinlega í þeim tilgangi að skapa aðstöðu til að þeim fækki og þau stækki.

Frú forseti. Til að þetta gerist verður auðvitað að byggja upp traust milli sveitarfélaga og ríkisvaldsins sem því miður hefur skort mjög á. Fyrir stuttu kom frumvarp inn í þingið sem ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hefur kynnt sér, um grunnskóla, þar sem mikil mótmæli komu (Forseti hringir.) fram frá stjórnvöldum sveitarfélaga varðandi það að gengið væri á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Slíkt er ekki til að byggja upp traust milli aðila.