132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[11:14]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er vissulega rétt að sú þróun hefur átt sér stað hér á landi marga undanfarna áratugi að Íslendingar velja að búa í auknum mæli á höfuðborgarsvæðinu. Það er þróun sem ég held að við sem störfum hér á Alþingi getum ekki komið í veg fyrir. Þetta er ákvörðun íbúanna sjálfra. Hins vegar getum við gert ýmislegt til að gera búsetu á landsbyggðinni ákjósanlega og ákjósanlegri en kannski hefur verið. Þar skipta atvinnumál, menningarmál og fræðslumál máli. Allt eru þetta málaflokkar sem við höfum verið og erum að undirbyggja og styrkja. Hvort það dugar til, hæstv. forseti, veit ég ekki. En þessi þróun er ekkert séríslenskt fyrirbæri. Hún á sér stað í öllum nágrannaríkjum okkar.

Um leið og við getum harmað að fólki fækkar í sveitum landsins verðum við líka að vera tilbúin að taka við því fólki á höfuðborgarsvæðinu með sem bestum hætti.