132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[11:18]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir framlagningu og framsögu á þessari skýrslu um sveitarstjórnarmál. Hún gefur okkur tækifæri til að fara vítt og breitt yfir sveitarstjórnarmálin og stöðu landsbyggðarinnar. Ég tel að slík skýrsla ætti að vera fastur liður í dagskrá þingsins á hverju þingi. Þó að ekki sé gert ráð fyrir því að þessari skýrslu verði vísað til nefndar væri auðvitað æskilegt að hv. félagsmálanefnd tæki hana til umfjöllunar og færi yfir hana. Það er ýmislegt í henni sem ástæða væri fyrir nefndarmenn í félagsmálanefnd að skoða nánar og fá frekari skýringu á en hægt er við umræðu eins og hér er. Ég beini því hér með til hv. formanns félagsmálanefndar, sem er í salnum, hvort ekki væri ástæða til þess að við eyddum smátíma í nefndinni til að fara yfir skýrsluna.

Það er afar mikilvægt að áherslan hjá þeim sem ráða ferðinni sé á heildstæða stefnu í byggðamálum sem byggir á nauðsynlegu og eðlilegu sambýli milli þéttbýlis og dreifbýlis, höfuðborgar og landsbyggðar. Það er mikilvægt fyrir alla framþróun á landsbyggðinni að bærileg sátt ríki milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar í ýmsum málum sem skipta miklu. Ég á þar við eflingu á sveitarstjórnarstiginu, aukið sjálfsforræði og stækkun sveitarfélaga, sem er lykilatriði í framþróun byggðar og eflingu landsbyggðarinnar. Veikleiki landsbyggðarinnar er að hluta til fámenni í allt of mörgum sveitarfélögum sem virkar hamlandi á það að sveitarfélögin geti tekið yfir fleiri og stærri verkefni. Það eru gífurlega mörg verkefni á könnu ríkisvaldsins núna sem eiga að vera hjá landsbyggðinni. Ég vil fara yfir það síðar í ræðu minni hvar ég vil leggja áherslurnar í þeim efnum.

Það er alveg ljóst að verkefni og skyldur sveitarfélaga hafa verið aukin, m.a. með breytingum á lögum og reglum, en tekjustofnar þeirra hafa ekki aukist að sama skapi. Á margan hátt hallar verulega á landsbyggðina og þarf að gera átak til að efla hana. Þó að mörg af stærri sveitarfélögunum hafi verið með jákvæða afkomu, t.d. á síðasta ári, er stór hluti sveitarfélaganna, sennilega tveir þriðju þeirra smærri, með neikvæða afkomu. Það hlýtur að koma að því að félagsmálaráðherra og stjórnvöld þurfi að taka á því, en velta því ekki ávallt á undan sér, að fara í tekjustofnamálin og tekjuskipti milli ríkis og sveitarfélaga.

Árið 2004 voru meðaltekjur á landsbyggðinni rúm 84% af landsmeðaltali meðan tekjur höfuðborgarsvæðisins voru 106,8%. Það er staðreynd að íbúum hefur fækkað í 53 sveitarfélögum frá árinu 2000 og sums staðar verulega og á heilum landsvæðum. Meðalaldur íbúa á landsbyggðinni hefur hækkað og aldurssamsetningin er óhagstæð. Það er því mikið verk að vinna til að efla sveitarfélögin.

Ég nefndi verkefnatilflutninginn, sem er afar mikilvægur, og ég hygg að þar hafi strandað verulega á því, í því átaki sem hæstv. félagsmálaráðherra beitti sér fyrir, að tekjustofnarnir voru ekki komnir á hreint. Það hefur verið ákveðin tortryggni í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem alls ekki eru komin í lag. Ég hef sagt og segi enn að ég tel að til þess að fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga komist í lag þurfi ríkisvaldið að jafna skuld sína við sveitarfélögin. Það hefur verulega hallað á sveitarfélögin og ríkisvaldið hefur farið í lagasetningar sem hafa haft veruleg áhrif á tekjur sveitarfélaga. Kannski vega þær breytingar þyngst sem urðu varðandi einkahlutafélög og skattlagningu þeirra en einnig húsaleigubæturnar, sem hafa vaxið gríðarlega og ríkisvaldið telur sér ekki lengur koma við. Þar var að mínu mati farið illa með sveitarfélögin, menn telja að óuppgerðar skuldir ríkisins við sveitarfélögin vegna þeirra séu upp á 2–2,5 milljarða kr. Ég tel að þetta þurfi að jafna — ríkisvaldið getur ekki bara sett þetta til hliðar — til þess að fara í það stóra verk sem er að flytja aukin verkefni og tekjustofna til sveitarfélaganna. Það verður að tryggja sveitarfélögunum trausta tekjustofna til framtíðar og ég held að grunnurinn að því sé að fara í tekjustofnana núna til að menn geti síðan farið í það að ákveða verkefnatilflutninginn. Menn hafa hingað til fyrst og fremst lagt áherslu á verkefnatilflutninginn en skilið tekjustofnamálið meira og minna eftir og á því hefur svo á endanum strandað.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Eru engin önnur áform uppi að því er varðar breytingu á tekjustofnum sveitarfélaga en þegar liggja fyrir? Liggur það alveg klárt og kvitt fyrir og er það afgreitt út af borði hæstv. ráðherra að fara eigi í að jafna skuld ríkisins við sveitarfélögin sem ég nefndi? Hvaða tekjustofnar eru það sem hæstv. ráðherra vill horfa til að geti farið til sveitarfélaganna til framtíðar? Kæmi t.d. til greina að hluti tekjuskatta lögaðila færi til sveitarfélaga? Aukinn hluti í staðgreiðslunni? Eða að hreinlega verði farið í að skoða hvort umferðarskattar, sem ríkið er með á sinni könnu og gefur núna 40 milljarða af umferðinni sem fara í ríkissjóð, gætu að hluta til verið tekjustofnar sveitarfélaga? Það er full ástæða til að velta þessu fyrir sér ef menn meina eitthvað með því af alvöru að fara í verkefnatilflutning til sveitarfélaganna.

Hér á landi er hlutur sveitarfélaganna í útgjöldum hins opinbera, a.m.k. síðast þegar ég skoðaði það, um 27%, en í Danmörku er hann miklu meiri, 43–44%, og í Noregi og Finnlandi 33–35%. Þar eru sveitarfélögin öflugri og hafa tekið við fleiri verkefnum en hefur getað gerst hér á landi, einkum vegna smæðar sveitarfélaganna. Ég vil ógjarnan sjá það að ekki sé hægt að flytja þau verkefni sem borðliggjandi er að fara eiga til sveitarfélaganna, eins og málefni aldraðra og fatlaðra, skólamálin í meira mæli og jafnvel framhaldsskólarnir þó að mörg sveitarfélög, fjöldi sveitarfélaga séu þegar í stakk búin til að taka að sér þessi verkefni en það er ekki hægt að flytja þau vegna þess að smærri sveitarfélögin geta ekki tekið við þeim. Ég vil ógjarnan sjá hér tvískipt sveitarfélög þar sem stærri sveitarfélögin fá verkefni sem þau minni ráða ekki við, að hér verði til einhvers konar A- og B-sveitarfélög. Þess vegna er það lykilatriði að tekið verði á tekjustofnum sveitarfélaga.

Áhrif sameiningar sveitarfélaga hafa verið mjög jákvæð. Félagsþjónusta hefur aukist. Þetta hefur haft jákvæð áhrif á fræðslumál, einkum þar sem þéttbýlis- og dreifbýlissveitarfélög eru sameinuð, stjórnsýslan er skilvirkari og faglegri. Það er því allt sem mælir með sameiningu sveitarfélaganna. Eins og félagsmálaráðherra kom inn á hafa verið stigin ágæt skref í að sameina sveitarfélög. Það kom að vísu ekki mikið út úr þeim átökum sem hæstv. félagsmálaráðherra beitti sér fyrir varðandi sameininguna fremur en þegar sú sem hér stendur beitti sér fyrir átaki 1993 sem félagsmálaráðherra. En ég held að það sé alveg ljóst að óbein áhrif af því sameiningarátaki voru mjög jákvæð vegna þess að í kjölfarið fylgdu sameiningar sveitarfélaga sem ég held að rekja megi að verulegu leyti til þeirrar umræðu sem fram fór í kringum þessi tvö sameiningarátök sem voru árið 1993 og nú á þessu ári.

Staðan núna er þannig að sveitarfélögin eru 98 og það stefnir í að þau fari niður í 83 með þeim sameiningum sem fram undan eru. Fjöldi fámennra sveitarfélaga er samt allt of mikill enn þá. Við erum enn með 40 sveitarfélög með undir 500 íbúum og 10 sveitarfélög með undir 100 íbúum. Það gengur bara ekki. Hæstv. ráðherra hefur sagt að útilokað sé fyrir svo fámenn sveitarfélög að sinna skyldum sínum fullkomlega en á sama tíma segir hann að ekki komi til greina að lögbinda sameiningu sveitarfélaga. Það er þó sú leið sem farin hefur verið á Norðurlöndunum, sveitarfélögunum var gefinn ákveðinn aðlögunartími til að sameinast, en hæstv. ráðherra blæs á að slíkt verði gert hér.

Ég tel að íbúatala þurfi að vera að lágmarki 2.000–3.000 manns í sveitarfélögum til að þau geti sinnt verkefnum sínum bærilega. Ég tel ekki útilokað að ljá máls á því að hækka íbúatöluna sem er núna 50. Hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur talað fyrir því hér að hækka íbúatöluna upp í 1.000. Ef það yrði gert tel ég að gefa þyrfti sveitarfélögunum góðan aðlögunartíma til að sameinast án slíkrar lögþvingunar en við getum ekki ýtt henni út af borðinu, vegna þess að það stöðvar alla framþróun og uppbyggingu á landsbyggðinni að vera með svo fámenn sveitarfélög.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hann koma til greina, þar sem hann vill ekki lögbindingu eða hækkun á íbúatölunni, að flytja verkefni eins og málefni aldraðra, málefni fatlaðra og hugsanlega framhaldsskólana yfir til stærri sveitarfélaganna? Hvaða leiðir sér ráðherrann til þess, ef hægagangur verður í sameiningunni á næstu árum, að flytja þessi verkefni til sveitarfélaganna?

Í skýrslu ráðherra segir um þetta, með leyfi forseta:

„Á vegum félagsmálaráðuneytisins er fyrirhugað að endurskoða stefnumótun í málefnum sveitarfélaga og fatlaðra, en stefnumótun í málefnum fatlaðra hefur að vissu leyti verið ómarkviss vegna óvissu um verkaskipti ríkis og sveitarfélaga.“ — Þetta er viðurkennt hér og áfram segir: — „Undanfarinn áratug hefur farið fram umræða um hugsanlegan flutning málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Sú umræða hefur að líkindum snúist of mikið um vilja og hagsmuni sveitarfélaganna.“ — Það er alveg ljóst að það strandaði á tekjustofnunum í því að flytja málefni fatlaðra til sveitarfélaganna. Menn voru ekki sammála um hvaða tekjur ættu að fylgja flutningi á þessum málaflokki til sveitarfélaganna. Ráðherrann segir svo í skýrslu sinni, með leyfi forseta: — „Stefnt er að því að koma málefnum fatlaðra í skýran farveg fyrir lok kjörtímabilsins.“

Hvað felst í þessu? Er verið að vinna að því núna að reyna að ná sátt milli sveitarfélaga og ríkis um þá tekjustofna sem þurfa að fylgja með ef málefni fatlaðra flytjast til sveitarfélaga? Þessi málaflokkur á miklu fremur heima hjá sveitarfélögunum en ríkinu. Við vitum hversu farsællega hefur tekist til varðandi flutning grunnskólans yfir til sveitarfélaganna. Hann á auðvitað heima þar svo og mörg önnur verkefni sem hægt er að flokka undir nærþjónustu sem sveitarfélögin geta sinnt miklu betur en ríkið.

Virðulegi forseti. Allt strandar þetta á því sama. Í fyrsta lagi að ríkið vill ekki ræða af alvöru um tekjustofna, framtíðartekjustofna til sveitarfélaganna, og þess vegna strandar á verkefnatilflutningum. Í öðru lagi eru það þessi smáu sveitarfélög og það hamlar framþróun á landsbyggðinni. Þessu verðum við að taka á í sameiningu.