132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[12:50]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér skýrslu félagsmálaráðherra um sveitarstjórnarmál. Eins og komið hefur fram í umræðunni er það visst nýmæli að ráðherrar komi með skýrslu um þennan málaflokk, eins og hann hefur rakið í framsöguræðu sinni.

Það eru nokkur atriði sem ég vil koma að í þessari umræðu. Í fyrsta lagi er það stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að efla sveitarstjórnarstigið á raunsönnum forsendum. Það er líka stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að efla og styrkja hina opinberu þjónustu gagnvart íbúunum hvar sem þeir búa á landinu, og að þar skuli jafnræðis gætt eins og reyndar stjórnarskráin kveður á um.

Ég held að þessi réttur íbúanna sé kannski grundvallaratriði sem við þurfum að leggja út frá. Þess vegna vil ég vara við þeirri nálgun sem kemur fram hjá hæstv. félagsmálaráðherra og reyndar fleirum, að gera mjög sterk skil á milli verka og ábyrgðar ríkis annars vegar og sveitarfélaga hins vegar eins og um sé að ræða tvo óskylda aðila. Það er að mínu viti ekki rétt nálgun. Nálgunin á að vera sú að saman eiga þessir aðilar, ríki og sveitarfélög, að axla þá sameiginlegu ábyrgð að veita þjónustu sem þeir eru ábyrgir fyrir til íbúanna hvar sem er á landinu á jafnréttisgrunni. Síðan finnum við bara leiðir að því. Við höfum verið með þessa verkaskiptingu, sveitarfélögin hafa ákveðin verkefni og ríkið svo sem ákveðin verkefni en þau vinna að því saman og axla þar sameiginlega ábyrgð.

Það fer ekki milli mála að hlutirnir snúast fyrst og síðast um peninga, um skiptingu fjármuna og síðan um verkefni og tekjustofna. Það var t.d. rætt mjög ítarlega við afgreiðslu fjárlaga hvernig á ýmsan hátt hefur hallað á sveitarfélögin í þessum samskiptum vegna þess að ríkið hefur oft og tíðum á býsna óábyrgan hátt komið fram sem sá sem deilir og drottnar. Ríkið ákveður í rauninni meira eða minna einhliða þessi samskipti en víkur sér svo undan ábyrgðinni þegar kemur að útfærslu einstakra mála og málaflokka.

Tökum t.d. elli- og hjúkrunarheimilin sem við ræddum í haust. Það liggur alveg fyrir að það vantar nokkur hundruð millj. kr. inn í þá þjónustu. Það liggur líka fyrir að það er ríkið sem kemur þar inn með fjármagn, sem hefur markað sér einhverja skilgreinda einingu. Hins vegar er ábyrgðin á framkvæmdinni oft og tíðum sveitarfélagsins eða viðkomandi heimasamfélags, hvort sem það er sjálfseignarstofnun eða sveitarfélagið sem stendur að því. Fólkið sem þarna á í hlut er jú hluti af því samfélagi sem þar er þannig að þegar fjármagn vantar til þess að reka elli- og hjúkrunarheimili hlaupa sveitarfélögin undir bagga. Ríkið stendur stikkfrí að því er virðist, setur nefnd í málið og setur aðra nefnd í málið og aðra nefnd í málið. Sveitarfélögin standa enn þá uppi eða íbúarnir á viðkomandi stað standa áfram uppi. Samskipti af þessu tagi eru hreint óásættanleg.

Ég vil spyrja hæstv. félagsmálaráðherra úr því að við erum að tala um þetta: Hvað líður því nefndarstarfi sem var lofað í haust við afgreiðslu fjárlaga, hvað líður niðurstöðum úr því starfi sem laut einmitt að fjárhag elli- og hjúkrunarheimila? Því var borið við af meiri hlutanum að ekki væri hægt að setja þessa peninga inn í þann málaflokk, sem þó lá alveg fyrir hver væri, vegna þess að verið væri að bíða eftir niðurstöðu einhverrar nefndar, sem átti reyndar að skila fyrir jól, átti að skila fyrir lok afgreiðslu fjárlaga, en um leið og niðurstöðurnar frá þessari nefnd kæmu þá ætti fjárhagsleg úrlausn að fást. Þetta er eitt dæmi um það hvernig ríkið heldur sveitarfélögunum og verkefnum þeirra og samfélögunum í úlfakreppu.

Það var líka hér rætt um, og hæstv. ráðherra kom inn á það í sínu máli, að það væri mikill munur á milli sveitarfélaga hvað varðaði tekjur, aðstæður og möguleika til þess að taka að sér hin ýmsu rekstrarviðfangsefni. Það er mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að það er staðreynd að svo er. Þær ástæður geta verið ýmsar, t.d. landfræðilegar. Þegar verið er að tala um fámenn og fjölmenn sveitarfélög finnst mér oft að menn einfaldi mjög fyrir sér myndina, því að það eru líka landfræðilegar ástæður sem kannski ráða hvað mestu um muninn. Ég veit t.d. ekki hvort Bílddælingar eða Patreksfirðingar væru eitthvað betur settir ef búið væri að sameina Vestfirði í eitt sveitarfélag. Fyrir mér væri það alla vega engin lausn per se — hér er svo oft sagt að lausnin sú jú að stækka og stækka sveitarfélögin. Ég held að menn þurfi að vera raunsæir en ekki tala með svona einfeldningslegum hætti að stækkun sveitarfélaganna sé það eina sem gildir og þá er verið að tala út frá íbúafjölda.

Það er líka mjög nauðsynlegt að átta sig á því að aðrar stjórnvaldsaðgerðir hafa mikil áhrif á sveitarfélögin og tekjur þeirra. Tekjur þeirra eru jú undirstaða fyrir möguleika þeirra að taka verkefnin að sér.

Á bls. 69 í þessari skýrslu segir, með leyfi forseta:

„Mismunandi forgangsröðun sveitarfélaga býður íbúum þannig upp á visst val um búsetu. Samkeppni getur myndast á milli sveitarfélaga um að bjóða aðlaðandi samsetningu á þjónustu og sköttum. Fólk getur því valið sér búsetu með hliðsjón af því en það veitir sveitarfélögunum visst aðhald. Það er að segja, íbúar gætu kosið með fótunum.“

Já, þetta er mjög samkeppnisleg hugsun sem þarna er verið að leggja fram og vissulega getur hún svo sem átt sín rök. En hvað með íbúa í sveitarfélögum t.d. á Vestfjörðum, er þetta falleg kveðja til þeirra? Ríkisvaldið sjálft hefur stillt atvinnulífinu upp með þeim hætti að lífsviðurværi þessa fólks, atvinnumöguleikar þessa fólks, hefur verið tekið frá því með stjórnvaldsaðgerðum. Hvers konar kveðja er það að segja við það fólk: Jú, ykkur er frjálst að kjósa með fótunum og fara annað?

Þegar íbúar Vestfjarða kvörtuðu undan því að þeir yrðu að borga stóriðjuskattinn vegna hás gengis og ruðningsáhrifa stóriðjuframkvæmdanna og afleiðinga þeirra var kveðja iðnaðarráðherra nákvæmlega sú sama og hæstv. félagsmálaráðherra, að ruðningsáhrifin gætu líka verið af því góða og fólkið ætti bara að sækja í aðra vinnu. Þetta fólk á ekkert val, yfirgefur eigur sínar, þetta er eignaupptaka. Svona er þetta víðar um land.

En það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að mörg sveitarfélög og margir íbúar eru ríkir. Við þá íbúa vill hann sérstaklega tala ef marka má ræðu hans þar sem hann sagði að athyglinni hefði hingað til allt of mikið verið beint að hinum fátækari sveitarfélögum og þeim sem ættu í erfiðleikum. Erfiðleikum vegna stjórnvaldsaðgerða — gleymum ekki því — að stórum hluta. En það er auðvitað miklu meira gaman að tala við og bera hag hinna stóru og ríkari fyrir brjósti, ég geri mér grein fyrir því, og að sjálfsögðu þarf að gera það líka. En ekki að senda hinum þessar kveðjur eins og hæstv. ráðherra gerir hér.

Tími minn styttist, frú forseti. Ég nefndi hér aðeins jöfnunarsjóðinn í andsvari mínu. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga var upprunalega, að því er ég held, myndaður til þess að jafna teknamun, jafna möguleika sveitarfélaga til þess að framkvæma samfélagsleg verkefni sem þeim voru falin samkvæmt lögum en höfðu ekki tekjur til eða aðstæður til. Það er dýrara að búa í sumum sveitarfélögum landfræðilega, langar vegalengdir o.s.frv. Ég hélt að svo hefði verið upphaflega. Núna sjáum við að jöfnunarsjóðurinn er orðinn eitthvað allt annað. Sveitarfélög sem ég hélt að væru bæði sterk og tiltölulega rík og með góðar landfræðilegar aðstæður fá líka háar upphæðir úr sjóðnum. Ég dreg ekki í efa að þessi sveitarfélög þurfi á þessum tekjum að halda til starfsemi sinnar. En það er eitthvað bogið við tekjustofna sveitarfélaga ef það á að vera einhver algild regla að jöfnunarsjóður sé orðinn stór aðili í tekjustofnum þeirra allra, þá er eitthvað bogið við hlutina. Mér sýnist t.d. að kannski sé búið að leggja á sjóðinn verkefni sem ættu bara að heyra beint undir ríkið og ríkið að fjármagna beint.

Mér finnst t.d. alveg sjálfsagt að efla framlög vegna nýbúafræðslu, þau eru nú ekki mikil, en þau eru færð í gegnum jöfnunarsjóð til sveitarfélaganna. Er þarna ekki verkefni sem væri miklu eðlilegra að væri bara á ríkinu sjálfu eins og mörg önnur slík mál? En það er farið að rekja sveitarfélögin í gegnum jöfnunarsjóð, m.a.s. tekjuútgjaldajöfnunarframlög koma á stór og þéttbýl sveitarfélög sem ég hélt að ekki ætti að vera þörf á eða ætti ekki að vera hlutverk sjóðsins. Mér finnst eins og farið sé að misnota jöfnunarsjóð og gera hann að einhverjum nýjum ríkissjóði sem alls ekki getur verið skynsamlegt. Það er nóg að hafa einn ríkissjóð og láta hann axla þá ábyrgð sem honum ber, sveitarfélögin geta síðan haft þá tekjustofna sem þau þurfa fyrir þau verkefni sem þeim eru falin. Það þarf að finna jöfnunarleið gagnvart þeim sveitarfélögum sem ekki hafa slíka tekjustofna, annaðhvort að ríkið komi inn í myndina ellegar að jafnað sé með öðrum sértækari hætti.

Frú forseti. Ég hef aðeins nefnt örfá atriði í þessu sambandi. Ég vil leggja áherslu á þingmál okkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um leikskóla t.d., að ríkið komi inn með fjármagn til sveitarfélaganna þannig að þau geti staðið að gjaldfrjálsum leikskóla um allt land. (Forseti hringir.) Það tel ég t.d. eitt af brýnustu málunum en það er hvergi (Forseti hringir.) nefnt í þessari skýrslu að því er ég hef séð.