132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Aðbúnaður aldraðra sem bíða eftir útskrift á LSH.

[13:53]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir að taka þetta brýna málefni til umræðu utan dagskrár. Þessi umræða, sem er ekki ný af nálinni, er jafnan nokkuð mótsagnakennd. Annars vegar er öllum ofarlega í huga það sem vel er gert á sjúkrastofnunum gagnvart öldruðu fólki. Allir eru sammála um framlag þess fólks sem þar starfar, hve lofsvert það er og þakkarvert. Hins vegar eru brotalamirnar í kerfinu. Þær tíundaði hv. málshefjandi ágætlega, m.a. aðbúnað fólks sem er oft margt saman í herbergi. Það hefur einnig komið fram hjá öðrum sem hafa tekið þátt í umræðunni að sjúkrahús eru ekki hugsuð sem íverustaðir, hvað þá heimili fólks til langs tíma. Hins vegar er á það að líta að sumir einstaklingar eru á mörkum þess að þurfa að vera á sjúkrahúsi og á hjúkrunarstofnun. Þar verður mér hugsað til Landakots, svo að dæmi sé nefnt, þar sem bærilega og mjög vel er búið að fólki. Margir eru á þessum markalínum. Og síðan er hitt, önnur brotalöm, sem er aðbúnaður og kjör starfsfólksins sem eru svo hrakleg að það er erfitt að ráða fólk til starfa, og álagið mjög mikið.

En hvers vegna teppist fólk á sjúkrahúsum til langs tíma? Það er margt sem veldur því. Í sumum tilvikum er um að ræða skort á rýmum á hjúkrunarheimilum en oftar er það mannekla á þeim stöðum. Það er t.d. að gerast núna og þar erum við aftur komin að kjörunum.

Í þriðja lagi er það sem mér heyrist allir vera sammála um líka, ófullnægjandi heimahjúkrun. Hana þarf að stórefla og ég tek undir það sem fram hefur komið (Forseti hringir.) hjá þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í þessari umræðu, þar er um að ræða sameiginlega ábyrgð (Forseti hringir.) og sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga.