132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Aðbúnaður aldraðra sem bíða eftir útskrift á LSH.

[14:02]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir málefnalegar og góðar umræður um þetta mikilvæga mál. Í þessum málaflokki, eins og svo mörgum öðrum, má alltaf gera betur. Það er einnig rétt að halda því til haga sem vel hefur verið gert. Í fyrsta lagi fá aldraðir, þó að þeir þurfi að bíða eftir hjúkrunarheimilisvist, mjög góða þjónustu eins og fram hefur komið, sem Landspítalinn veitir. Í öðru lagi hefur verið tekið á á þessu sviði og fyrir ári var komið upp 20 rúma deild á Landakoti. Aldraðir sem bíða á Landspítalanum eftir hjúkrunarheimilum hafa forgang að Vífilsstöðum og Sóltúni.

Við í heilbrigðisráðuneytinu höfum ávallt lagt á það áherslu við forstöðumenn hjúkrunarheimila að þeir taki tillit til Landspítalans þegar þeir taka inn nýtt fólk. Ég legg sérstaklega á það áherslu, sem reyndar hefur komið fram í máli margra ræðumanna hér, að efla þurfi heimaþjónustuna. Við erum hér í stóru verkefni að samþætta heimaþjónustu borgarinnar og heimahjúkrun. Það þarf að ljúka því verkefni og efla heimahjúkrunina. Ég fagna mjög því samkomulagi sem tókst í Hafnarfirði um heimaþjónustu. Það finnst mér merkur þáttur í þeirri skýrslu sem samstarfsnefnd okkar þar skilaði, efld heimaþjónusta og heimahjúkrun.

Það þurfum við að efla enda heyri ég á hv. ræðumönnum að menn eru sammála um þennan þátt málsins. Ég sé ekki að mikið beri á milli um aðferðir og vissulega eru margs konar aðgerðir í gangi til að sporna við óhagræði og auka þjónustu við aldraða.