132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[15:50]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég lauk fyrri ræðu minni um skýrslu hæstv. félagsmálaráðherra um sveitarstjórnarmál þar sem ég var kominn að því að tala um tekjur sveitarfélaga, tekjumöguleika og tekjustofna. Ég hlustaði áðan á ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar sem var að mörgu leyti mjög athyglisverð, einkum þegar hann talaði um tekjur sveitarfélaganna og hvernig sveitarfélögin hefðu þurft að bregðast við til að fasteignaskattar keyrðu ekki algjörlega yfir greiðslugetu fólks vegna þess að fasteignamat hafði hækkað mjög mikið á sumum landsvæðum. Þetta er auðvitað algjörlega rétt hjá hv. þingmanni.

Fasteignaskattarnir skipta auðvitað verulegu máli í tekjustofnum sveitarfélaga en hins vegar er fasteignagjaldið þannig að það tekur ekkert mið af tekjum fólks, hvort þær hækka eða lækka á milli ára eða hversu mikið þær hækka, oftast nær er nú einhver hækkun á milli ára. Satt að segja hef ég velt því fyrir mér, hæstv. forseti, og verið að skoða það í alvöru hvort ekki þurfi að breyta lögunum um tekjustofna sveitarfélaga hvað varðar fasteignaskattinn í þá veru að fasteignaskatturinn geti ekki hækkað meira á milli ára en sem nemur einhverri viðmiðun í greiðslugetu fólksins sem á að greiða skattinn, því að ekkert samhengi er á milli hækkunar fasteignagjalda og þeirra kauphækkana sem fólk nýtur á viðkomandi ári. Þess vegna erum við að skoða það, í Frjálslynda flokknum, að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á álagningu fasteignaskatts sem væri eitthvað á þá leið að þrátt fyrir hækkun fasteignamats viðkomandi árs væri sveitarfélögum óheimilt að hækka fasteignaskattinn meira en sem næmi launaþróun eða launavísitölu.

Ég held að þetta væri í sjálfu sér réttlætanlegt og er mjög í samræmi við það sem hv. þm. Jón Gunnarsson lýsti hér áðan, að sveitarfélögin tækju tillit til þess svo að skatturinn hækkaði kannski ekki um 20 eða 30% á milli ára og horfðu svolítið til þess að fasteignaskatturinn keyrði ekki langt fram úr greiðslugetu fólks. En það er auðvitað mjög misjafnt, sums staðar nota menn þessa hækkun, sveitarfélögin ákveða sjálf hvaða viðmið þau hafa í fasteignaskattinum. Ég held hins vegar að setja þurfi slíka varnagla gagnvart launþegum, það er mjög óeðlilegt að fasteignaskatturinn taki ekkert mið af því hver greiðslugetan er hjá því fólki sem á að greiða hann. Þó að grunnurinn og stofninn og uppreikningurinn sé byggður á verðmæti fasteigna í hverju sveitarfélagi eða landsvæði fyrir sig væri samt sem áður eðlilegt að setja eitthvert þak á það hvað skatturinn mætti breytast með tilliti til þess hvort greiðslugeta greiðenda á viðkomandi landsvæði hefði breyst almennt.

Ég held að þetta væri réttlætismál sem getur hins vegar í einhverjum tilfellum þýtt tekjuminnkun hjá sveitarfélögum og þar erum við auðvitað komin að miklu vandamáli, sem vissulega hefur verið vikið að í þessari umræðu, að tekjur sveitarfélaganna aukast ekki neitt í líkingu við það sem þær gera hjá ríkinu. Menn geta svo hælt sér af því í ríkisstjórninni að þar sé verið að greiða niður skuldir ríkissjóðs, þar sé reksturinn í lagi og þar sýni menn ábyrgð og aðhald en ekki hjá sveitarfélögunum. Ég held að í flestöllum sveitarfélögum reyni menn að sýna ábyrgð og aðhald í rekstri þeirra. Hins vegar er það svo að á undanförnum árum hefur ríkið verið að fá verulega miklar tekjur en sveitarfélögin hafa ekki fengið verulega aukningu með tekjustofnum sínum. Þetta er atriði sem þarf að skoða og ég er á þeirri skoðun, hæstv. forseti, að finna þurfi einhverja tekjustofna fyrir sveitarfélögin sem koma sjálfvirkt til sveitarfélaganna, hvort sem það tengdist virðisaukaskatti eða öðrum gjöldum sem koma sjálfvirkt, eins og t.d. tekjur af umferðinni, umferðargjöld og annað slíkt. Það er eitthvað sem menn standa frammi fyrir að velta upp á komandi missirum.

Hægt er að hugsa sér eina leið í viðbót sem ég hef reyndar ævinlega talið að hefði átt að tilheyra sveitarfélögunum að langmestu leyti og það er auðlindagjaldið. Ég tel að auðlindagjaldið hefði að stofni til átt að fara að langmestu leyti til sveitarfélaganna. Auðvitað kann að vera að vegna fyrirkomulags auðlindagjaldsins, sem leggst á úthlutaðar aflaheimildir, þurfi sá aðili sem leggur það á og innheimtir, sem er Fiskistofa, að fá eitthvað fyrir sinn snúð og sína vinnu. Í dag sér Fiskistofa um innheimtu á þessum tekjum og nýtir þær en það væri auðvitað mjög auðvelt að láta fyrirkomulagið vera þannig að Fiskistofa sæi eftir sem áður um innheimtuna en til hennar rynni ekki nema tiltekið hlutfall af gjaldinu, t.d. 25%, og Fiskistofu bæri að skila 50–75% af gjaldinu til sveitarfélaganna. Ég held að það væri í sjálfu sér réttlátt að útfæra þetta einhvern veginn á þann veg. Ég ætla ekki að ræða hér mikið um auðlindaskattinn eins og hann er útfærður en vil bara láta þess getið að ég og fleiri hv. þingmenn bentum á það á sínum tíma þegar stofninn var fundinn út að það gæti reynst afar vitlaust fyrirkomulag að reikna út verðmætin fyrir skattálagninguna miðað við árið á undan og láta menn svo greiða árið eftir vegna þess hvernig fyrirkomulagið væri í tekjum af sjávarútvegi, bæði breytileg aflabrögð og einnig afurðaverð og útgerðarkostnaður. Þetta hefur einmitt komið á daginn, enda hefur sjávarútvegsráðherra lagt fram frumvarp þess efnis að þegar menn ekki afla, eins og t.d. rækju, þá breytist greiðslufyrirkomulagið en eðlilegast hefði auðvitað verið að innheimta þess skatts hefði verið af verðmætunum á hverjum tíma. Þar af leiðandi hefðu menn ekki þurft að vera að ómaka sig með það frumvarp sem núna hefur verið lagt fram í þinginu.

Hæstv. forseti. Ég bendi á að auðvitað eru möguleikar á að láta sveitarfélögin hafa meiri tekjur. Það er eitthvað sem við þurfum að taka sérstaklega á ef við ætlum okkur, sem mér heyrist á langflestum þingmönnum að vilji sé fyrir, að færa fleiri mál til sveitarfélaganna og láta þau takast á við fleiri málaflokka. Þar hafa menn nefnt velferðarþjónustuna í heilu lagi, svo sem vegna aldraðra og fatlaðra, heilbrigðisþjónustuna að hluta til, þ.e. heilsugæsluna, og framhaldsskólinn hefur verið nefndur. Sá sem hér stendur nefndi í morgun einnig samgöngur á milli byggðarlaga, þ.e. það sem lýtur að viðhaldi, snjómokstri og hálkuvörn, svo eitthvað sé nefnt. Mætti reyndar einnig nefna vegmerkingar í því sambandi þó að sveitarfélögin færu ekki beinlínis í gerð nýrra vega heldur væri slíkt áfram hjá Vegagerðinni.

Atvinnumálin og byggðamálin verða aldrei í sundur skilin. Við sjáum það best á Austurlandi núna þegar atvinnuástand er þar gott að þá er mikill uppgangur, verið er að byggja íbúðarhúsnæði og fólk hyggst flytja þangað og sækja um atvinnu hjá álverinu á Reyðarfirði. Fólk horfir til þess svæðis sem atvinnusvæðis þar sem einhver festa verði ríkjandi og það er einmitt málið. Það þarf nefnilega festu í atvinnuháttum til þess að fólk treysti á að búa á viðkomandi stöðum. Hluti af því fólksflóttavandamáli sem verið hefur á landsbyggðinni tengist atvinnumálunum og ég held að þar hafi munað mest um, a.m.k. í sjávarbyggðunum, þann mikla tilflutning á aflaheimildum sem verið hefur í hinu framseljanlega kvótakerfi og það óöryggi sem felst í því að aflaheimildirnar, sem eru grunnur í atvinnurekstri sjávarbyggðanna, eru engan veginn sá stofn sem menn geta treyst á. Í raun og veru þarf ekki nema skilnað í útgerðarmannafjölskyldu til að aflaheimildirnar fari allar úr plássinu. Það er náttúrlega alveg skelfilegt að hafa útfærsluna með þessum hætti, að maður tali nú ekki um ýmis önnur vandamál sem fylgja þessu, t.d. að það vanti nýliðun í greinina og að ungir menn eigi erfitt með að komast þar að o.s.frv.

Allt byggist auðvitað á því hvað varðar hinar dreifðu byggðir að þar sé ákveðin festa í atvinnuháttum og í mörgum byggðum hefur sjávarútvegurinn verið festan í atvinnuháttunum. Við upplifum það núna að mjög margt hefur breyst í því, ekki þarf að nefna annað en rækjuveiðina o.s.frv. til að sjá að margir staðir, sem áður voru blómlegir í atvinnuháttum, eiga nú undir högg að sækja. Þess vegna verður aldrei undan því vikist, hæstv. forseti, að horfa sameiginlega til atvinnumála og byggðamála. Ég held þess vegna að það sé rétt sem segir einhvers staðar í skýrslunni að sveitarstjórnirnar þurfi að koma að atvinnumálunum með einhverjum hætti og sérstaklega að byggðamálunum og tillögum í þá veru til þess að hafa áhrif á það að halda undirstöðuatvinnuvegunum í byggðarlögunum. Það er gríðarlega mikils virði fyrir byggðirnar að halda þeim vegna þess að í kringum þá byggist upp svo margt annað.

Ég hef stundum sagt það áður að ég hlustaði einu sinni á erindi atvinnumálaráðgjafa á Eyjafjarðarsvæðinu sem var að tala um nýsköpun og annað slíkt sem þar ætti sér stað. Sá ágæti maður fullyrti einfaldlega að ef ekki hefðu verið svo sterk sjávarútvegsfyrirtæki á Eyjafjarðarsvæðinu sem raun ber vitni hefði nýsköpun þar í ýmsum iðnaðargreinum orðið miklu minni og bara almennt séð. Þetta vitum við auðvitað sem höfum alist upp úti á landi og séð iðnaðarfyrirtæki verða til úr litlu í upphafi upp í að verða þjónustufyrirtæki á heimsmarkaði í matvælaframleiðslu. Má þar nefna fyrirtæki á Ísafirði eins og Póls hf. sem núna er hluti af Marelsamsteypunni, 3X-Stál, svo eitthvað sé nefnt, Skaginn á Akranesi o.fl. Þetta hefur allt orðið til vegna þess að ákveðinn grunnur var fyrir í byggðinni og menn gátu byggt þar upp þjónustu og þekkingu og með nánu samstarfi þróað vörur sínar.

Að endingu vil ég segja að byggðamálin og atvinnumálin verða ekki skilin í sundur ef vel á að vera og að ekki er heldur hægt að hugsa sér að færa fleiri verkefni til sveitarfélaganna í framtíðinni nema því aðeins að sveitarfélögin hafi tryggari og öruggari tekjustofna en þau hafa í dag. Að því þurfa menn að stefna og vinna traust á milli ríkis og sveitarfélaga þegar þau verkefni eru færð yfir þannig að ekki ríki mikil tortryggni gagnvart því að hægt sé að taka við verkefnum, og að tekjustofnar fylgi slíkum verkefnum.