132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[16:36]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Þetta er að mörgu leyti ágætisskýrsla og maður heyrir að þingheimur tekur henni mjög vel. Ég er á því að það sé m.a. vegna þess að hún er vel úr garði gerð en kannski er það einnig vegna þess að samanburðurinn við aðrar skýrslur sem við höfum verið að ræða undanfarna daga og vikur, og þá dettur mér í hug skýrsla um byggðamál, er bara þessari skýrslu svo hagstæður. Skýrslan um byggðamál var svo afleit að þessi skýrsla glóir eins og gull í samanburðinum. (KHG: Er þetta þá ekki bara raus?) Nei, ég er á því að það sé ekki raus vegna þess að í þá skýrslu vantaði allar mælieiningar. Menn ræða hér að það eigi að verða framhald á þessum umræðum og þessum skýrslugjöfum og það sem ég hefði viljað sjá í þessari skýrslu er stutt yfirlit um skuldastöðu sveitarfélaga — ég sá hér í hliðarherbergi að í Árbók sveitarfélaganna er til gott yfirlit yfir skuldastöðu og rekstur sveitarfélaga — en ekki síður að menn tækju skuldastöðuna, stöðu sveitarfélaganna og greiddu úr því þegar menn væru að fela slæma stöðu sveitarfélaga í einkarekstri og rekstrarleigum. Menn eru að koma skuldum sveitarfélagsins í þann búning þannig að efnahagsreikningur sveitarfélags lítur ekki eins illa út og raun ber þó vitni.

Mér dettur strax í hug að ef maður skoðar efnahagsreikning sveitarfélags eins og Reykjanesbæjar sem er búinn að koma miklum eignum fyrir í rekstrarleigum er mjög erfitt að bera hann saman við rekstrarstöðu annarra sveitarfélaga sem hafa ekki gert það. Þessu þarf að greiða úr því að það er algjörlega óþolandi að menn geti leikið sér að því að fela skuldir fyrir íbúunum. Þessir reikningar eiga að vera samanburðarhæfir og menn eiga ekki að geta falið raunverulega stöðu sveitarfélaganna.

Það eru fleiri ágætir kaflar í þessari skýrslu. Ég vil minnast á kaflann um lýðræðismál sem ég tel að þarfnist endurskoðunar í ljósi prófkjara síðustu daga, vikna og mánaða þar sem peningar virðast ráða mjög miklu um útkomu prófkjörs og vera í rauninni ráðandi afl. Það er eins og að frambjóðendur í stærsta sveitarfélaginu á landinu telji sig þurfa að verja mörgum milljónum til þess að ná kjöri. Ég er nokkuð viss um að þessir fjármunir hafi ráðið úrslitum í einhverjum mæli. Það þarf að taka á þessu og þetta er inni í umræðunni um fjármál og fjárreiður stjórnmálaflokka og ég er á því að í ljósi atburða síðustu daga þurfi að fara í gegnum og klára þessa umræðu. Þetta er nú fyrir nefnd og ég óttast mjög að stjórnarflokkarnir hafi engan áhuga á að klára þetta mál vegna þess að þeir hafa reynt að draga lappirnar og vilja sem mest leyna því hverjir greiði í kosningasjóði flokkanna. Þessu þarf að hætta. Við verðum að líta til þess að t.d. í stærsta sveitarfélaginu, þar sem prófkjör hafa klárast, standa þessir menn sem hafa þegið margar milljónir frá fyrirtækjum og mögulega fjársterkum einstaklingum að einhverju leyti í þakkarskuld við þá sem hafa gefið þessar peningagjafir. Þetta er auðvitað óþolandi. Við sjáum að þetta geta verið mjög miklir hagsmunir. Það eru t.d. deilur í Hveragerði núna og áhöld um að allt sé með felldu hvað varðar lóðaúthlutun til eins ákveðins fyrirtækis. Svona mál þarf að útkljá og þau þurfa að vera uppi á borðinu.

Hér er vitnað í könnun Transparency International sem ég gerði að umtalsefni síðasta haust vegna þess að mér blöskraði að Ísland væri í efsta sæti á þessum lista yfir minnst spilltu þjóðir í ljósi þess að hæstv. forætisráðherra stóð í að selja sjálfum sér Búnaðarbankann með umdeildum aðferðum. Það er náttúrlega með ólíkindum að við höfum getað lent efst á þessum lista. Eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson benti á virðist hæstv. félagsmálaráðherra draga að einhverju leyti úr því að við eigum heima efst á þessum lista vegna þess að hann leggur á bls. 33 í skýrslu sinni fram könnun sem dregur mjög í efa að við eigum að tróna efst á þeim lista yfir minnst spilltu þjóðir í heiminum. Þar kemur fram að tæplega 60% svarenda töldu frændsemi og kunningsskap skipta mjög miklu máli til að fá pólitíska fyrirgreiðslu. Þetta er náttúrlega alveg óþolandi.

Það eru fleiri þættir sem við verðum að líta til með jákvæðum huga. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson minntist á mál sveitarstjórnarfulltrúa og þá reikna ég með að það hafi verið í Dalabyggð. Þetta er alveg rétt sem hann benti á, ég tek undir það, en það verður að líta til þess að stjórnsýslulögin eru frá árinu 1993 og við erum að slípast í meðferð þeirra. Þetta er eitt af því sem þarf að taka á og ég vonast til þess að hæstv. félagsmálaráðherra bregðist að einhverju leyti við þeirri gagnrýni sem kom fram hjá hv. þingmanni og boði breytingu á þessu. Það er mjög sérstakt að fólk hafi verið utan sveitarstjórnar og að teknar hafi verið ákvarðanir í svo langan tíma án þess að það virðist hafa nokkrar afleiðingar.

Fyrst maður ræðir hér sveitarstjórnarmál er ekki hægt að líta fram hjá því, enda kemur það fram í skýrslunni, að staða sveitarfélaga er æðimisjöfn og menn eru ekkert að tala um einn og sama hlutinn þegar menn tala um stöðu sveitarfélaga. Sum sveitarfélög standa ákaflega vel og önnur illa. Sumir virðast telja það, þar á meðal hæstv. félagsmálaráðherra, það má heyra á stundum, að lausnin fyrir minni sveitarfélög sé að sameinast. Það á að laga nær allan vanda þeirra. Það er því miður ekki svo því að þau sveitarfélög sem hafa orðið hvað verst úti hvað varðar byggðaþróun eru sjávarbyggðir sem hafa farið mjög illa út úr kvótakerfinu Við sjáum að tekjur sumra sveitarfélaga eru 400 millj. kr., t.d. Vesturbyggðar, tæpar 400 millj. enda hafa verið seldar þaðan veiðiheimildir á umliðnum árum fyrir miklum mun hærri upphæðir. Það hefur skert tekjumöguleika sveitarfélaganna. Vandi þessara byggðarlaga í hnotskurn er fiskveiðistjórnarkerfi Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sem hefur ekki mátt breyta þrátt fyrir að byggðirnar hafi fari mjög illa út úr þessu. Það er eitt af því sem verður ekki umflúið að taka á, enda er þetta kerfi með þeim hætti að það þjónar ekki nokkrum tilgangi hvað varðar fiskveiðistjórn, heldur virðist þetta vera eitthvert peningakerfi sem kemur byggðunum illa. Það þarf að taka virkilega á því.

Eins þurfa sveitarfélögin að fá tekjustofna og hlutdeild af sköttum. Hér hafa verið nefndir ýmsir skattar. Ég vil nefna fjármagnstekjuskattinn, ég ætla að láta fljóta hér sögu af milljónamæringi sem fluttist í sjávarþorp, hafði um 20 millj. kr. í fjármagnstekjur og átti fjögur börn. Það var gríðarlegur baggi að fá þennan milljónamæring í sveitarfélagið vegna þess að hann skilaði engum tekjum til viðkomandi sveitarfélags en það var gífurlegur kostnaður af honum vegna þess að börnin gengu í skóla. Jú, hann greiddi að vísu eitthvað fyrir það að sorphirðan tók ruslið frá honum, fasteignagjöld, en annað fékk sveitarfélagið ekki. Það fékk fasteignagjöldin, hann keypti sér hús, en af þessum 20 millj. kr. tekjum kom ekkert til sveitarfélagsins. Ríkið fékk einhvern fjármagnstekjuskatt, 10%. Þetta er náttúrlega óþolandi staða. Fólk sem jafnvel rekur lítil fyrirtæki og baslar í þessum sveitarfélögum horfir upp á þetta, engar tekjur af fjármagnstekjuskatti frá milljónamæringum sem flytjast inn í sveitarfélögin á meðan aðrir greiða skatta og gjöld, og alltaf af æ lægri launum. Skattprósentan lækkar en persónuafslátturinn ekki þannig að láglaunafólkið í viðkomandi byggð borgar fyrir þennan milljónamæring sem skilar ekki einni krónu til reksturs sveitarfélagsins. Kannski gerir hann það í gegnum jöfnunarsjóð eða eitthvað álíka en þetta er algjörlega óþolandi og særir réttlætiskennd fólks. Það verður að taka á þessu.

Ég dreg einnig í efa að við eigum að ræða hér um sveitarstjórnarstigið og að verkefni sveitarstjórna á landinu eigi að vera þau sömu. Ég er ekkert endilega viss um að verkefni Reykvíkinga eigi að miðast við það sem lítil sveitarfélög á landsbyggðinni geta innt af hendi, og öfugt. Ég sé ekkert endilega rök fyrir því að minni sveitarfélög eigi að hafa öll þau sömu verkefni og stóru sveitarfélögin. Ég held að það sé orðinn það mikill munur á rekstri sveitarfélaganna út frá stærð og getu að það er í rauninni ekkert hægt að ætlast til þess þó svo að heilu sveitarfélögin sameinist. Ég hef bent á það t.d. á Ströndum að þó svo að allir íbúar Stranda sameinist í eitt sveitarfélag er varlegt að ætlast til þess að þeir fari í öll þau sömu verkefni og Reykjavíkurborg. Ég held að það sé ekki raunhæft, frú forseti.