132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[16:49]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég var kominn þar í fyrri ræðu minni að ég var að bera saman þróun tekna ríkisins og sveitarfélaganna frá árinu 1998–2004. Ég fór yfir það hversu mikið tekjur ríkisins hafa aukist umfram tekjur sveitarfélaganna en ríkið hefur aukið tekjur sínar um 78% á sama tíma og sveitarfélögin hafa aukið skatttekjur sínar um 49%. Það hefur gliðnað á milli ríkisins og sveitarfélaganna enn frekar frá því sem var. Þegar töflur eins og eru á bls. 38 í skýrslunni eru skoðaðar, sem sýna okkur að sveitarfélögin á Íslandi eru með mun minni hlutdeild í samneyslu en er annars staðar á Norðurlöndum, þá mun með þessari þróun nokkur ár í viðbót hlutfall sveitarfélaga í samneyslunni á móti ríkinu minnka enn og enn meiri munur verða á milli Norðurlandanna sem við berum okkur saman við og sveitarfélagastigsins hérna.

En eitt verðum við að varast í þessari umræðu og það er að tala um sveitarfélögin sem einsleitan hóp. Mjög víða í skýrslunni er verið að fara yfir og setja fram tölur um hópinn sveitarfélög. En við þekkjum það sem höfum starfað í sveitarstjórnum og tekið þátt í því að stýra og annast málefni sveitarfélaga að það er afskaplega mikill munur á sveitarfélögum á Íslandi og ég leyfi mér að efast um að hann gerist meiri víða annars staðar. Þess vegna verðum við að gjalda ákveðinn varhuga við því þegar við erum að fara yfir tölur um hlutföll og annað slíkt, að það eru öll sveitarfélög á landinu tekin saman í einn hóp og síðan er lagt út frá þeim tölum sem út frá því koma.

Mér sýnist á bls. 40 í skýrslunni, þar sem farið er yfir hlutfallslega skiptingu útgjalda eftir málaflokkum, að gróft sagt eru þessi lögbundnu verkefni sveitarfélaga á sviði fræðslu- og uppeldismála, á sviði félagsþjónustu, æskulýðs- og íþróttamála, þó það sé ekki allt saman lögbundið, að þessir þrír málaflokkar samanlagt séu yfir 70% af útgjöldum sveitarfélaga og þá eru öll sveitarfélög á landinu tekin saman í einn hóp. Þetta sýnir okkur kannski í hnotskurn hversu lítið val sveitarstjórnarmenn hafa þegar þeir eru að stýra málefnum sveitarfélags síns vegna þess að í hin lögbundnu verkefni, í hina lögbundnu þjónustu sem sveitarfélögunum ber að inna af hendi fer afskaplega stórt hlutfall af tekjunum og lítið verður eftir til að sinna verkefnum eða málefnum sem gerð er krafa um umfram hin lögbundnu lágmarksverkefni sem sveitarfélögunum er falið. Þetta getur að mörgu leyti verið ástæðan fyrir því hversu erfiðlega gengur á mörgum stöðum að fá fólk í sveitarstjórnir.

Tafla á bls. 22 í skýrslunni vakti athygli mína sem heitir: Fjöldi nýkjörinna og endurkjörinna fulltrúa í sveitarstjórnarkosningum árið 2002. Þar er farið yfir landið allt og öll sveitarfélög. Síðan er þeim skipt upp í smærri og stærri. En ef við horfum á landið allt eru fulltrúar í sveitarstjórnum 657 og nýkjörnir fulltrúar samkvæmt þessum tölum 317, eða 48,3%. Samkvæmt því er helmingur allra sem kjörnir voru í sveitarstjórn á árinu 2002 nýkjörnir.

Ef við skoðum þessa endurkjörnu fulltrúa sem eftir sitja, 340, þá voru 300 kjörnir árið 1998, þ.e. fjórum árum áður. Það þýðir að af 340 sem ná kosningu aftur séu 300 búnir að sitja eitt kjörtímabil en ekki lengur. Ef við förum alla leið í töflunni þá eru fulltrúar sem setið hafa fleiri en tvö kjörtímabil samkvæmt þessu einungis 40 af 657.

Ég efast nú satt að segja um að þessi statistikk sé rétt. Það hljóta að vera einhverjar skekkjur í þessu. En eftir sem áður veit ég af eigin raun og reynslu að það er ekki auðvelt að fá fólk til starfa í sveitarstjórnum vítt og breitt um landið. Bara sem dæmi, af því að sem sá sem hér stendur situr í sveitarstjórn, kjörinn í sveitarstjórn á árinu 2002, þá voru kjörnir fimm fulltrúar í hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps, fjórir af þeim eru farnir til annarra starfa og sitja ekki lengur í sveitarstjórn og varamenn komnir í þeirra stað. Þessar tölur koma mér því ekkert á óvart þegar ég horfi á þær jafnvel þó að einhverjar skekkjur séu í þeim. Það er nefnilega ekki auðvelt að reka sveitarfélögin á Íslandi í dag. Þá er ég að tala um millisveitarfélög og minni sveitarfélög sem berjast í því að veita hina lögbundnu þjónustu á sem bestan hátt og að þeim kröfum sem nútíminn gerir, en eru á hinn bóginn varla með tekjur til að sinna þeirri lögbundnu þjónustu.

Hér hefur verið rætt talsvert um nauðsyn þess að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga. Ég tek undir þá umræðu vegna þess að við sjáum á þróun tekna milli ríkis og sveitarfélaga að þegar sveitarfélögin sitja eftir með eingöngu skatta- og launatekjur og síðan fasteignaskattinn, þá halda þau ekkert í við ríkið á þenslutíma eins og nú er. Sveitarfélögin ná ekki að halda hlut sínum í heildarskatttekjum á Íslandi þegar við lifum við þensluástand eins og nú er. Það er nauðsynlegt fyrir sveitarfélögin að þau fái hlutdeild í veltusköttunum að einhverju leyti, að hluti af virðisaukaskatti sé á einhvern hátt eyrnamerktur sveitarfélögunum. Ég held að það verði líka að koma til skoðunar hvort sveitarfélögin eigi að njóta tekjuskatts sem einkahlutafélög greiða. Við vitum að einkahlutafélög hafa verið stofnuð í mjög auknum mæli, oft og tíðum utan um einn einstakling sem er með ákveðinn rekstur í kringum sig. Áður var sá einstaklingur að reka sig sem einstakling en rekur sig núna sem einkahlutafélag og það þýðir náttúrlega að sveitarfélagið fær ekki krónu í tekjuskatt af þeim einstaklingi vegna þess að þetta fer meira og minna allt í gegnum einkahlutafélagið.

Annað sem maður veltir fyrir sér er hlutdeild í sköttum á umferð og sköttum vegna samgöngumannvirkja. Ég held að fróðlegt væri að velta fyrir sér hver hlutur sveitarfélaganna sé í heildarvegakerfi landsins og hver hlutur ríkisins sé. Það er ríkið sem fær eingöngu þessa skatta af umferð og samgöngumannvirkjum en sveitarfélögin ekki. Ég held að það gæti verið svolítið skemmtileg umræða að fara í gegnum það hve stór hluti vegakerfisins er í eigu, í rekstri og viðhaldi sveitarfélaga versus það sem ríkið er með sín megin. Því eins og við vitum hefur ríkið allar skatttekjur af umferð og samgöngum en sveitarfélögin ekki neitt. Bara þessi þrjú litlu atriði sem ég hef nefnt mundu gjörbreyta að mínu viti tekjumunstri sveitarfélaganna sem er allt of einsleitt.

Á bls. 43 í skýrslunni kemur fram hvernig tekjur sveitarfélaga skiptast. Og enn og aftur kannski negli ég þann varnagla að vont er að tala um sveitarfélög sem einn hóp því tekjurnar skiptast misjafnlega á milli þeirra. En 61% af tekjum sveitarfélaga er útsvar, eða útsvarstekjur af launatekjum íbúa. Framlög úr jöfnunarsjóði eru 8%, 11% koma úr fasteignaskatti. Aðrar tekjur sem eru þá þjónustugjöld og slíkt sem lagt er á þjónustu er um 18% og aðrar tekjur með skattaígildi eins og kallað er, eru 1%. Þarna er útsvarið langstærsti hlutinn og þegar útsvarið og fasteignaskatturinn eru lögð saman er það orðinn afskaplega stór hluti af tekjum sveitarfélaganna. En vaxandi hluti eru þó þjónustutekjur, aðrar tekjur, sem eru orðnar 18% af heildartekjum sveitarfélaganna.

Þegar talað er um að sveitarfélögin séu misjöfn eftir stærð og öðru því um líku þá sést það mjög greinilega á súluritinu á bls. 43. Þar sjáum við að mjög misjafnt er hvernig tekjur sveitarfélaga skiptast eftir því hversu stór þau eru og hvar þau eru á landinu. Það vakti athygli mína að þjónustutekjur sveitarfélaga undir 300 íbúum eru um það bil 60% af heildartekjum þeirra sveitarfélaga. Maður gæti haldið að íbúar þessara fámennu sveitarfélaga væru að borga svona hrikalega mikil þjónustugjöld fyrir þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir. En ég hygg að skýringin sé frekar sú að þarna sé um að ræða tiltölulega fámenna sveitahreppa suma hverja sem njóta virkjunartekna og einhverra slíkra tekna því að mismunurinn á tekjumunstri þessara litlu sveitarfélaga, eins og það birtist í töflunni og t.d. Reykjavíkurborgar, er geigvænlega mikill. Þegar Reykjavíkurborg er með um það bil 68% af tekjum sínum af útsvari, lítið sem ekkert úr jöfnunarsjóði, um 11–12% úr fasteignaskatti, og í þjónustutekjum um 17% þá eru þessi litlu sveitarfélög eingöngu með 20% úr útsvari. Úr jöfnunarsjóði 12–13%, úr fasteignasköttum 6–7% og síðan koma þessar þjónustutekjur sem ég var að nefna upp á 60%. Ég held að að mörgu leyti væri fróðlegt að brjóta aðeins betur niður þessi litlu sveitarfélög og sjá tekjumunstur þeirra. Hvernig stendur á því að tiltölulega fámenn sveitarfélög eins og þarna eru, eru með svona mikinn hluta sinna tekna, eða 60% í gegnum þjónustugjöld?

Ég ræddi um það í fyrri ræðu minni að ekki gæfist tími til að tala um sameiningu sveitarfélaga og varla að það gefist tími til þess í seinni ræðunni. Það sem ég vil segja um átakið sem ákveðið var að fara í að samkomulagi Samtaka íslenskra sveitarfélaga á Íslandi og félagsmálaráðuneytisins um að efla sveitarstjórnarstigið, að það átak fór algjörlega út um þúfur. Ég held að menn þurfi að skoða aðeins betur en gert hefur verið af hverju þetta gerist aftur og aftur þegar farið er í svona átök. Við höfum áður séð stórátök um sameiningu sveitarfélaga sem gengið hafa illa. Á meðan á átökunum stendur og meðan kosið er gerist lítið þó svo í kjölfarið gerist það að einhver sveitarfélög byrji að tala saman og ná síðan að sameinast þegar yfir lýkur, þá gerist lítið meðan á þessu heildarátaki stendur um sameiningu sveitarfélaganna. Ég hélt satt að segja að menn hefðu lært af síðasta stóra átaki áður en þau fóru í það sem var að ljúka. En svo virðist ekki vera. Samkomulag Sambands íslenskra sveitarfélaga og félagsmálaráðuneytisins gekk út á að fara í átak um að efla sveitarstjórnarstigið. Þetta átak átti að vera þríþætt. Í fyrsta lagi átti að semja um fjárhagsleg samskipti milli ríkisins og sveitarfélaganna. Um hvernig tekjur sveitarfélaganna mundu breytast á ársgrundvelli og ekki síður um hvaða tekjur ætti að fylgja ákveðnum tilteknum verkefnum ef þau kæmu til sveitarfélaganna. Þetta gekk ekki eftir. Niðurstaðan af þessum samningum um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga var með þeim hætti að menn einfaldlega, margir hverjir sem höfðu bundið miklar vonir við að það gæti hjálpað til í sameiningu sveitarfélaga sáu að það mundi ekki gerast.

Annar þátturinn var að flytja verkefni til sveitarfélaganna í meira mæli en verið hefur. Menn gáfust upp við þann hluta átaksins að flytja verkefni til sveitarfélaganna og ná einhverju samkomulagi um það. Þá stóð einungis eftir spurningin um stærð sveitarfélaga og sameiningu. Þetta mikla átak sem allir voru sammála um að nauðsynlegt væri að fara í til að efla sveitarstjórnarstigið, endaði þannig að það klúðraðist vegna þess að menn ákváðu og enduðu eingöngu í því að kjósa um sameiningu sveitarfélaga. Það gekk ekkert betur núna en í fyrri slíkum átökum. Ég vona að menn fari nú að læra af því.

Aðeins um jöfnunarsjóðinn. Oft hefur verið talað þannig um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga að hann sé orðinn allt of stór á Íslandi og talað um að reglur um hann séu bæði flóknar, ógegnsæjar og það séu bara tveir aðilar sem kunni þær reglur til hlítar, þ.e. ef þeir eru í sama herbergi á sama tíma, þá sé hægt að fara í gegnum hvaða reglur gilda um útgjöld jöfnunarsjóðsins. En þegar maður skoðar súlurit á bls. 45, um tekjuskiptingu sveitarfélaga á Norðurlöndum árið 2002, sést samt að jöfnunarhlutinn, sem hlutfall af tekjum sveitarfélaga, er lægstur á Íslandi. Ef við berum það saman við Finnland, Svíþjóð, Danmörku og Noreg. Þannig að hlutfall tekna sveitarfélaga sem fer til jöfnunar og kemur í gegnum jöfnunaraðgerðir eru meiri og hærri annars staðar á Norðurlöndunum en hér.

Aðeins í lokin, af því tími minn er að verða búinn, langar mig að vekja athygli hæstv. ráðherra á bls. 44. Þar er talað um 9. gr. Evrópusáttmálans um sjálfsstjórn sveitarfélaga og það beri að tryggja sveitarfélögum sjálfstæða tekjustofna til að standa undir lögbundnum verkefnum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, þegar sveitarfélög eru rekin með bullandi (Forseti hringir.) halla ár eftir ár, er þá verið að uppfylla þennan Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga?