132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[17:23]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg viss um að allir Akurnesingar vilji skrifa upp á að þau fyrirtæki sem voru sett inn í HB á sínum tíma hafi verið komin að fótum fram. Það má þá alveg eins spyrja að því hvort það hafi ekki einmitt verið HB sem var komið að fótum fram. Kannski voru allir komnir að fótum fram í þessu dæmi, ég skal ekki um það segja. En ég hef hitt marga Akurnesinga sem eru algjörlega ósammála því að þessi fyrirtæki hafi verið jafnilla stödd og látið var í veðri vaka á sínum tíma þegar verið var að kýla þessa sameiningu í gegn.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði að honum þætti leitt að ég hefði ekki getað talað um það hvað ég teldi að bæjarstjórnin á Akranesi hefði átt að gera nú síðast. Jú, ég tel að bæjarstjórnin á Akranesi hefði til að mynda mátt sýna af sér þann dug að láta í sér heyra þegar menn sáu hvert stefndi. Ég hef ekki orðið var við að bæjarstjórnarmenn á Akranesi hafi gert það, hvorki samfylkingarmenn, sjálfstæðismenn né framsóknarmenn, alls ekki. Ef maður skoðar til að mynda fjölmiðla, dagblöð og annað þess háttar, þá hefur ekkert heyrst frá þessum mönnum, ekki nokkur skapaður hlutur. Það má vel vera að þeir hafi verið að vinna eitthvað á bak við tjöldin en það hefur þá ekki komið fram með opinberum hætti, alls ekki. (Gripið fram í.)

Þess má einnig geta að menn hafa setið báðum megin við borðið. Þar get ég til að mynda nefnt framsóknarmanninn Guðmund Pál Jónsson sem á sama tíma og þetta var að ganga yfir bæjarfélagið var formaður bæjarráðs og nú síðast bæjarstjóri en jafnframt einn af æðstu yfirmönnum HB Granda. Og þarna komum við einmitt að hlut sem ég kom inn á í ræðu minni áðan, það sem nefnt er í skýrslunni sem við erum að tala um hér í dag, en það er siðferði í sveitarstjórnarmálum. Hvernig sveitarstjórnarmenn eru oft og tíðum hagsmunatengdir, hvernig þeir eru oft og tíðum fjölskyldutengdir og hvernig það síðan bitnar á almannahagsmunum í sveitarfélögunum, ekki síst þegar óáran af þessu tagi dynur yfir þau — þegar eitthvað gerist fyrir tilstilli vitlausra ákvarðana, til að mynda hér í þessum sal, m.a. í tengslum við fiskveiðistjórnarkerfið. Bæjarstjórnirnar geta þá ekki beitt sér (Forseti hringir.) vegna þess að þær eru svo tengdar inn í ríkisstjórnarflokkana og aðra hagsmunaaðila.