132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[17:26]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Breytingarnar sem hafa orðið á atvinnulífinu á Akranesi í sjávarútveginum á undanförnum árum hafa annars vegar verið vegna tilfærslna á veiðirétti, þar sem menn hafa keypt í burtu veiðirétt og reyndar stundum líka rétt til Akraness. Þær hafa líka verið vegna breytinga á útgerðarmynstri fyrirtækisins sem er þarna stærst, þ.e. HB Grandi núna. Það vissu menn fyrir að líklegast mundi það gerast.

Auðvitað er það ekki þannig að menn haldi áfram um aldur og eilífð að keyra kannski uppsjávarfiski austan af fjörðum og í kringum landið til þess að bræða hann á Akranesi eins og gert var. Menn verða að horfast í augu við að það var ekki mjög hagkvæmt fyrirkomulag. (Gripið fram í.) Fyrirtækið sem hér um ræðir valdi auðvitað leið sem gefur því meiri arð, þ.e. að nýta sér það að bræða þennan fisk fyrir austan land. Menn vissu á sínum tíma að sú yrði framtíðin, a.m.k. þeir sem horfðust í augu við raunveruleikann í þessum dæmum.

Við hér á Alþingi getum ekki staðið í því að gagnrýna það að menn taki skynsamlegar ákvarðanir, það get ég ekki gert. Ég get ekki gert kröfu um það, og mér finnst að bæjarstjórnin á Akranesi geti ekki heldur gert neinar kröfur um það, að menn haldi áfram einhverjum rekstri sem er ekki skynsamlegur. Auðvitað þykir mönnum sárt að niðurstaðan hjá þessu fyrirtæki hafi orðið sú að flytja starfsemi í burtu, eins og t.d. vinnu við netagerð og annað slíkt og að leggja niður ýmis verkstæði og annað sem þar var til staðar. Það er þó atvinna sem heldur að hluta til áfram á svæðinu.

Ég ætla ekki að hlaupa í vörn fyrir þetta fyrirtæki. Ég held hins vegar að það sé ekki nóg að menn komi bara og segi: Ja, það er búið að flytja í burtu atvinnuna. Það verður líka að svara því (Forseti hringir.) hvers vegna menn hefðu átt að halda áfram rekstri sem ekki var skynsamlegur.