132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[17:28]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Það er í byrjun ástæða til þess að þakka fyrir þá skýrslu sem hér hefur verið lögð fram. Eins og fram hefur komið í umræðunni er afskaplega vel til hennar vandað og tímabært að fá skýrslu af þessum toga sem umræðugrundvöll fyrir Alþingi. Það er líka vert að þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram í dag. Ég tel, frú forseti, að sú umræða sé að mörgu leyti söguleg og merkileg fyrir þær sakir að þetta er í fyrsta sinn, a.m.k. í langan tíma, sem fram fer hér pólitísk og efnisleg umræða um sveitarstjórnarstigið. Það er nefnilega þannig að umræða hér á Alþingi um sveitarstjórnarmálin á síðustu árum hefur allt of mikið borið keim af skotgrafarhernaði þar sem stjórnarandstaða, getum við sagt, hefur rokið upp og reynt að finna höggstað á sitjandi ríkisstjórn á hverjum tíma, talað um fjármál sveitarfélaganna, bága stöðu þeirra o.s.frv. Fyrir vikið hefur efnisleg, skapandi umræða um stöðu sveitarstjórnarmála og þróun þeirra orðið lítil. Kannski er það ein ástæðan fyrir því að svo hægt hefur miðað sem raun ber vitni, sérstaklega hvað varðar flutning á verkefnum frá ríki til sveitarfélaga.

En umræðan lýtur ekki síst að sameiningu sveitarfélaga, þ.e. fækkun sveitarfélaga og stækkun. Þá hljótum við að velta upp spurningunni: Hvers vegna er sú umræða jafnmikil og raun ber vitni? Svarið er margþætt en ein ástæðan er tvímælalaust sú að eins og málum er háttað í stjórnsýslu okkar er mikill lýðræðishalli hvað varðar ákvarðanatöku og nálægð þegna landsins að ákvarðanatöku. Stjórnsýsluverkefni eru að 70% í höndum ríkisins og 30% í höndum sveitarfélaga, öfugt við það sem tíðkast annars staðar. Fyrir vikið hefur skapast mikill lýðræðishalli. Stærri ákvarðanir eru teknar fyrir sunnan, hvar svo sem menn eru á landinu.

En menn mæla líka með sameiningu, fækkun og stækkun sveitarfélaga, af því að menn vilja koma fleiri verkefnum til sveitarfélaganna og að þar með fái þau að axla þá ábyrgð og fái þá möguleika sem fylgja þeim verkefnum. Þetta lýtur að svokallaðri nærþjónustu sem ég hygg, eins og fram hefur komið í umræðunni, að flestir telji skynsamlegri, að ákvarðanatakan sé sem næst þeim vettvangi sem þjónustan fer fram á.

Að undanförnu hafa menn almennt í samfélaginu fallið frá þeirri miðstýringaráráttu sem einkennt hefur stjórnsýslu okkar og strúktúr. Við sjáum hvernig það hefur gerst í atvinnulífinu, þar sem dregið hefur verið úr miðstýringu. Við sjáum það í alþjóðaþróuninni hvernig miðstýringin hefur verið á undanhaldi og valddreifing einkennt breytingar, bæði innan lands og erlendis. Valddreifing hefur orðið á kostnað miðstýringar og inn á það kemur umræðan um sameiningu sveitarfélaga, fækkun þeirra og stækkun, þ.e. að gera sveitarfélögin það öflugar einingar að þau séu einfaldlega í stakk búin að taka við verkefnum úr hinni grimmu krumlu ríkisins, ef svo má að orði komast.

Sveitarstjórnarskipan okkar í dag er nokkur hundruð ára gömul og byggir á allt öðru samfélagi en við lifum í nú til dags. Miðstýringin og sú staðreynd að verkefni hafa að 75% verið í höndum ríkisins og stjórnsýslan því öll hrúgast upp í höfuðborginni hefur líklega haft meiri áhrif á byggðaþróun hérlendis en nokkur önnur stjórnvaldsaðgerð. Það má segja að miðstýringin hafi beinlínis leitt til að á höfuðborgarsvæðinu, í kringum miðstöð stjórnsýslunnar, eru þúsund fjölbreytilegra starfa. Störfin draga að sér fólk. Það þarf fólk til að sinna þessum störfum. Þess vegna hefur umræðan um stækkun einstakra sveitarfélaga verið jafnmikil og raun ber vitni.

Hver hefur þróunin verið? Eins og fram kemur í mjög góðri skýrslu hæstv. ráðherra og komið hefur fram í umræðunni voru sveitarfélögin í landinu 202 fyrir um 15 árum eða svo. Núna stefnir í að þau verði 80. Þetta er mjög hröð þróun og má segja að henni hafi verið hrundið af stað fyrir alvöru undir forustu þáverandi félagsmálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Þótt árangur í sameiningarkosningu, sem hún beitti sér fyrir, hafi ekki verið mikill á kosningardegi þá fylgdi í kjölfarið stöðug umræða sem leiddi til sameininga. Sama gerist nú þegar hæstv. félagsmálaráðherra Árni Magnússon er í brúnni með Sambandi sveitarfélaga. Þótt ekki hafi náðst beinn árangur á sjálfan kjördag hafa, í kjölfarið og meira að segja á undan, sveitarfélög tekið þessar ákvarðanir.

Það er rétt að minna á, frú forseti, að hér er valin lýðræðisleg leið, að láta kjósendur sjálfa velja um hvort þeir vilji sameinast öðrum sveitarfélögum. Danir hafa t.d. farið síður lýðræðislega leið og látið Þjóðþingið sjálft ákveða stærðarmörk sveitarfélaga. Það kann vel að vera að það verði næstu skref hjá okkur. Við höfum svo sem séð frumvarp þess efnis, m.a. frá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, þótt það hafi ekki gengið mjög langt. Það kann vel að vera að svo verði í næstu áföngum.

Í þessu samhengi er rétt að velta upp, eins og kemur fram í skýrslu hæstv. ráðherra, spurningunni um höfuðborgarsvæðið. Ég tek undir þau sjónarmið og þær hugmyndir sem hreyft er í skýrslunni, um mikilvægi þess að líta á sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sem eina heild, hvort sem er með sameiningu eða að efla og festa hið formlega samstarf þeirra betur í sessi. Við vitum að rígur og ósamkomulag á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hefur m.a. leitt til að skipulagsmál hafa á stundum verið í hálfgerðri upplausn og uppnámi, t.d. lagning vega og þar fram eftir götunum.

En við hljótum jafnframt, frú forseti, miðað við þá byggðaþróun sem orðið hefur en yfir 60% þjóðarinnar búa hér í kringum höfuðborgina, að velta fyrir okkur hve stórt hlutfall höfuðborg má vera, sem hlutfall af heildaríbúatölu. Það hefur komið fram í tví- eða þrígang á þingi Evrópuráðsins, þar sem þingmenn frá öðrum löndum ræddu um það sem vandamál að í höfuðborgum þeirra byggju 25–30% þjóðarinnar. Það litu menn á sem stórt vandamál. Hér erum við að tala um 60% og jafnvel yfir 60% þjóðarinnar. Það er mál sem vert er að velta upp og skoða. Hvað er æskileg stærð, hve stór má höfuðborg vera? Alveg eins og við ræðum um lágmarksfjölda íbúa sveitarfélaga þarf líka að ræða um hámarksíbúafjölda.

Frú forseti. Mig langar að nefna meginatriðið í því að fækka sveitarfélögum og stækka. Megintilgangurinn er að færa verkefnin, rífa þau úr miskunnarlausri krumlu ríkisvaldsins og koma þeim yfir til sveitarfélaga. Til að það sé hægt verða sveitarfélögin að vera í stakk búin að taka við aukinni ábyrgð, auknum verkefnum og þar af leiðandi auknu fjármagni. Hvaða verkefni koma þar helst til greina? Það er rétt að rifja það upp. Ekki þarf að endurtaka hvaða gæfuspor það var að færa grunnskólann til sveitarfélaga. Öllum ber saman um að grunnskólinn hafi blómstrað síðan, miðað við það sem gerðist meðan hann var í höndum ríkisins. Ábyrgðin, skyldan og metnaðurinn er heima í héraði en ekki hjá misvitrum aðilum fyrir sunnan, eins og ávallt er sagt hvort sem menn eru í Vestmannaeyjum eða á Akureyri.

Í þessu sambandi er líka rétt að minna á tónlistarkennsluna, þegar hún færðist yfir til sveitarfélaga þótt enn sé glímt við vanda í því, sem vonandi leysist. En það er engum vafa undirorpið að það var gæfuspor að koma tónlistarkennslunni í hendur sveitarfélaganna. Hún hefur tekið miklum framförum. Með sama hætti eigum við að velta því rækilega fyrir okkur hvort framhaldsskólarnir eigi ekki að fara yfir til sveitarfélaga. Ekkert í lögum kemur í veg fyrir að slíkt verði gert en mig grunar að einhver sveitarfélög muni af metnaði sínum óska eftir því við menntamálaráðuneytið, áður en langt um líður, að fá að taka formlega við rekstri framhaldsskólanna á sínu svæði með samningum um peninga sem með fylgja.

Það hefur komið fram, varðandi málefni fatlaðra sem var fallið frá á sínum tíma en flutningur málaflokksins undirbúinn að mestu leyti, að menn vildu jafna sig á því að taka yfir grunnskólann. Ég tel að það mál sé í raun tilbúið og ekki um annað að ræða en að ákveða það í samráði við Samband sveitarfélaga.

Ég vil líka nefna verkefnalista sameiningarnefndar verkefnisstjórnar um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Eftirlitsiðnaðurinn hefur dafnað betur en nokkur önnur atvinnugrein á Íslandi síðustu árin. Hér fyrir sunnan hafa sprottið upp stórar stofnanir sem senda herskara fólks um borg og bý til að sinna eftirliti með atvinnulífinu, með stofnunum, fólki og fyrirtækjum. Því fylgir ærinn kostnaður.

Á sama tíma hefur heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna vaxið fiskur um hrygg frá því að þeim var komið á koppinn í kringum 1987. Þau voru þá sum vanburðug til að takast á við fagleg verkefni en á því hefur orðið breyting. Mér finnst blasa við að mörg af þeim eftirlitsstörfum sem nú eru í klóm ríkisins, með miðstöð á höfuðborgarsvæðinu, væru betur komin í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Það mundi fela í sér allverulegan sparnað, ekki síst fyrir þá sem þurfa að borga fyrir eftirlitið, þ.e. atvinnulífið sjálft. Það eru til fáránleg dæmi um slíkt, t.d. um að heilbrigðiseftirlit sveitarfélags skoði bensíntanka innan ákveðinna stærðarmarka en fari þeir yfir þessi stærðarmörk koma spekingar að sunnan, gjarnan á bílaleigubíl, til að taka bensíntankana út.

Sama gildir um heilbrigðisstofnanir og málefni aldraðra. Um það ríkir óvissa. Þar eru grá svæði. Sá málaflokkur heyrir að sumu leyti undir ríkið og sumpart undir sveitarfélögin. Það er skaði að því, hvor bendir á annan og því mikilvægt að færa málaflokkinn til sveitarfélaganna svo að ábyrgðin sé á einni hendi. Mér finnst við eigum að velta upp löggæslunni og ýmsum atriðum í velferðarkerfinu, svokallaðri velferðarstofu sem er til skoðunar hjá ráðuneytinu. Þar er reynt að steypa saman í eina þjónustuvæna stofnun hjá sveitarfélögunum, öllu sem lýtur að félagsmálum, jafnvíðfeðm og þau eru. Því skyldi löggæslan ekki vera í höndum sveitarfélaga? Og ýmislegt í starfi Vegagerðarinnar mætti samnýta við áhaldahús einstakra sveitarfélaga og þar fram eftir götunum.

Frú forseti. Þótt þau atriði sem ég hef talið upp færðust yfir til sveitarfélaganna yrði skiptingin á milli ríkis og sveitarfélaga samt í kringum helmingur, 50% hjá hvorum aðila meðan við horfum á að í nágrannalöndum okkar eru sveitarfélögin með um 70%. Við verðum samt miðstýrðari en nágrannaþjóðir okkar svo við eigum langt í land.

Frú forseti. Sú þróun sem hér hefur orðið mun halda áfram. Sveitarfélög munu halda áfram að stækka. Þeim mun fækka og þau munu taka að sér verkefni. Það þarf að bæta samgöngur í kringum einstaka byggðarkjarna. Þetta snýst ekki bara um atvinnu og þjónustu heldur líka um gildismat. Það gildismat að geta notið þess að vera í öflugu sveitarfélagi, notið þar menningar, tómstunda og atvinnu. Slíkt gerist ekki nema í stórum sveitarfélögum og ber að fagna þeim árangri sem hefur náðst. Líklega hefur verið slegið nýtt Íslandsmet varðandi sameiningu sveitarfélaga í þeirri hrinu sem nú hefur staðið yfir.