132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[17:55]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Í síðustu ræðum hefur verið komið inn á nauðsyn þess að sameina sveitarfélög og rætt um og farið yfir síðustu tilraun til þess, sem því miður var mjög illa undirbúin. Ég álít að menn hefðu átt að vanda sig betur áður en farið var í þá vegferð þannig að þeir sem kusu um sameiningu sveitarfélaga í síðustu atrennu vissu hvað þeir væru að fara út í. En ástæðan fyrir því að þetta var fellt víðast hvar á landinu var einmitt sú að það var ekki alveg ljóst hvaða verkefni þau áttu að taka að sér. Ekki var heldur ljóst hvaða tekjur áttu að koma á móti. Það var vandinn, ekki endilega að fólk vildi ekki vinna saman, það er langt í frá.

Það þarf að fara yfir þessa hluti en telja ekki bara upp verkefni í belg og biðu, löggæslu, heilbrigðiseftirlit o.s.frv. Þetta verður að vera markviss umræða, menn verða að vita hvaða peninga þeir fá og hvaða verkefni. En það er einnig rétt sem kom fram hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að sveitarfélögin eru ekki eitt og hið sama. Það er tómt mál að tala um að færa verkefni til fámennra sveitarfélaga víða á landsbyggðinni þó svo að þau sameinist, þau geta náð yfir það stór landsvæði, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni, að þó svo að t.d. öll sveitarfélögin í Strandasýslu sameinuðust ná þau ekki þúsund manns í sveitarfélaginu, þau ná ekki 600 ef ég man rétt. Það er því tómt mál að tala um að bera þau saman við stórt sveitarfélag eins og t.d. Reykjavík. Þetta getur orðið til þess að Reykjavík fái ekki að þróast og taka að sér verkefni sem eru við hæfi í borginni ef menn halda þessari vitleysu áfram að setja verkefni á fámenn sveitarfélög sem þau ráða aldrei við. Menn eiga að horfast í augu við staðreyndir í þessum málum og tala ekki um sameiningu sveitarfélaga sem eitthvert lausnarorð.

Þau sveitarfélög sem farið hafa hvað verst út úr byggðaþróun síðustu ára, og eru tínd til á bls. 69 og 8, eru sveitarfélögin í sjávarbyggðunum. Það sem mig langar að gera að umtalsefni í ræðu minni er hvers vegna þessi sveitarfélög hafa ekki mótmælt þeirri aðgerð stjórnvalda sem hefur farið hvað verst með þau, og þá er ég að tala um kvótakerfið sem hefur augljóslega farið mjög illa með sveitarfélögin. Margir sveitarstjórnarmenn eru í stjórnarflokkunum og ég er á því að þeir hafi, þegar á hólminn var komið, ekki staðið með sínu sveitarfélagi og hagsmunum íbúanna heldur frekar kosið að taka afstöðu með stjórn flokksins, með flokksforustunni í Reykjavík.

Í umræðunni fyrr í dag var verið að ræða um Akranes. Þar á Samfylkingin í hlut, því þó svo að hún sé á móti kvótakerfinu virðist hún einhvern veginn vera undir hælnum á meðreiðarsveinum sínum í Framsóknarflokknum vegna þess að þar á bæ vilja menn alls ekki mótmæla þessu kerfi sem augljóst er að hefur leikið sjávarbyggðirnar illa. Nú virðast allar veiðiheimildir vera að fara frá Akranesi og þetta er nánast allt í upplausn. Fyrir tveimur árum fór t.d. þáverandi bæjarstjóri fram á það að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson bæðist afsökunar á orðum sínum þar sem hann gagnrýndi aðgerðir sem vörðuðu flutning á kvóta frá Akranesi.

Það er náttúrlega með ólíkindum þegar við sjáum það að menn taka í rauninni afstöðu á móti íbúunum sem þeir eiga að vera að þjóna og skamma þá sem vara við hættunni af því að flutningur á kvóta geti valdið stórskaða fyrir byggðarlagið. Þetta er mjög áberandi.

Ég vil minnast á fleira í þessu máli. Ég vil minnast á Vestfirðinga. Ég var staddur á fjórðungsþingi Vestfjarða sl. haust og þar átti að þagga niður alla umræðu um fiskveiðimál og alla umræðu um byggðamál vegna þess að þetta var óþægileg umræða fyrir kvótaflokkana, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokk. Maður er svo hissa á þessu að fólkið sem á að vera í því að verja rétt byggðanna til að fá að sækja í sameiginlega auðlind þjóðarinnar, það skuli síðan reyna að þagga niður þessa umræðu. Ég vil enn og aftur lýsa yfir mjög mikilli undrun yfir því að engin sveitarstjórn á landinu hefur svo best sem ég veit mótmælt kerfinu, engin sveitarstjórn sem hefur farið illa út úr þessu fiskveiðistjórnarkerfi hefur mótmælt umræddu kerfi sem hefur farið svo illa með byggðirnar að sérstakur kafli er um það í skýrslunni hvað þær standa illa. Það er ekki nóg með að við sjáum að fækkun hafi orðið heldur hefur aldurssamsetningin líka breyst.

Einn hv. þingmaður minntist á að hlutfallslega væri varið minni upphæðum til æskulýðs- og íþróttamála í minni sveitarfélögum. Ætli það sé vegna þess að hlutfallslega séu færri í þeim aldurshópum í slíkum sveitarfélögum? Staðan núna er orðin mjög alvarleg og menn verða að gera sér grein fyrir að það verður að fara að snúa við blaðinu. Hvers vegna er það ekki gert? Það er ekki verið að þjóna fólkinu í landinu. Fólkið í landinu hefur sagt það hér. Einn hv. þingmaður hefur ítrekað bent á könnun þar sem 84% þjóðarinnar vilja annaðhvort breyta eða henda kvótakerfinu sem er að leika byggðirnar illa en samt sem áður standa þessir kvótaflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, vörð um kerfið og virðast að einhverju leyti hafa Samfylkinguna í gíslingu þegar þeir eiga í samstarfi við þann flokk, því það er alveg með ólíkindum hvers vegna þessu er hvergi mótmælt og jafnvel reynt að þagga niður umræður. Þetta liggur við fasisma sem ég varð vitni að á fjórðungsþingi Vestfjarða þar sem þagga átti umræðu niður um þá hagsmuni byggðanna sem skiptir þær hvað mestu máli. Þarna átti í hlut forseti bæjarstjórnar Ísafjarðar, sjálfstæðismaður. Þetta var óþægilegt. Maður veltir fyrir sér í ljósi þess að menn eru að ræða lýðræðisþróun, hvaða hagsmunum er verið að þjóna með þessum hlut. Það er ekki verið að þjóna hagsmunum Ísfirðinga, langt í frá. Kannski er verið að þjóna hagsmunum flokksforustunnar og það er mjög alvarlegt.

Fleira vekur athygli í skýrslunni, t.d. skipting tekna eftir íbúafjölda sveitarfélaga og það endurspeglar þetta enn og aftur. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson benti á það að á bls. 43 kæmi fram að hlutfallslega miklu minna af útsvari kæmi í minni sveitarfélögunum en í Reykjavík og stærri sveitarfélögunum. Ætli það sé ekki líka afleiðing af þessu kerfi sem er að leika byggðir landsins hvað verst? Ég hefði haldið að svo væri. Hvar eru sveitarstjórnarmenn á landsbyggðinni? Hvers vegna mótmæla þeir ekki?