132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Sala Búnaðarbankans.

[15:10]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Þegar forsætisráðherra berst það til eyrna að til standi að ræða þetta mál við hann á Alþingi, er þá ekki eðlilegt að hann hringi til Ríkisendurskoðunar til að leita upplýsinga um málið? (SigurjÞ: Og afgreitt það?) Hver var að segja að það hefði verið afgreitt? Það hefur ekki nokkur maður sagt það. En væri kannski ekki eðlilegt að hv. þingmaður hringdi líka í Ríkisendurskoðun til að leita sér upplýsinga? Hv. þingmaður þarf greinilega ekkert að gera það og það er gott til þess að vita að hann var a.m.k. ekki að lýsa því yfir fyrir hönd Alþingis að Ríkisendurskoðun nyti ekki trausts. Ég spyr: Var hv. þingmaður að lýsa því yfir fyrir hönd flokks síns? Miðað við þessa umræðu held ég að það sé alveg bráðnauðsynlegt að taka þetta mál fyrir í forsætisnefnd því ef það er tilfellið að Ríkisendurskoðun njóti ekki trausts, þó það sé ekki nema eins þingflokks á Alþingi, þá er það mjög alvarlegt mál og í fyrsta skipti sem það kemur fram. Ég vænti þess að þingmaðurinn sé einn um þá skoðun.