132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Áætlun og aðgerðir um varnir gegn fuglaflensu.

[15:35]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Flest lönd í heiminum hafa uppi mikinn viðbúnað vegna mögulegrar útbreiðslu svokallaðrar fuglaflensu sem greinst hefur í mörgum löndum Asíu og einnig í nokkrum löndum Evrópu, nú síðast í Frakklandi. Menn hafa og áhyggjur af efnahagslegum áhrifum veikinnar ef hún breiðist út en umræðan hefur þegar haft mikil áhrif á neysluhætti fólks þótt vitað sé að bein hætta sé alls ekki fyrir hendi.

Í dag hittast t.d. landbúnaðarráðherrar Evrópusambandsríkja til að ræða leiðir til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu H5N1 veirunnar í álfunni. Á þeim fundi er ekki síður rætt um efnahagsleg áhrif fuglaflensunnar og áhrif hennar á neysluhætti. Viðbrögð almennings við henni, neysluvenjur og matvælaforði, er því greinilega hluti viðbúnaðarins. Miklu máli skiptir að upplýst umræða og fræðsla eigi sér stað, bæði um hvernig bregðast skuli við ef fuglaflensan berst til landsins og ekki síður þannig að bæði leikir og lærðir geti metið umræðuna á hverju stigi og áhættuna á yfirvegaðan hátt.

Hinn 7. október síðastliðinn tilkynnti ríkisstjórnin um viðbrögð og aðgerðir vegna hugsanlegs heimsfaraldurs inflúensu. Nefnd ráðuneytisstjóra heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis hefur skilað tillögum til ríkisstjórnarinnar. Þar var einmitt rætt um þróun áhættumats og viðbúnað í öðrum löndum, aðgang að lyfjum og hugsanlega lyfjaframleiðslu hér á landi, jafnframt fræðslu- og upplýsingamiðlun. Allt er þetta gott og blessað en ég held að við núverandi aðstæður skipti síðastnefndu þættirnir, um fræðslu og upplýsingu, afar miklu máli.

Eins og fram kemur í svari hæstv. landbúnaðarráðherra við fyrirspurn hv. þm. Þuríðar Backman 24. janúar síðastliðinn er t.d. ekki til staðar aðstaða og búnaður hér á landi til að rannsaka eða sinna fullnægjandi eftirliti með því hvort veikin berist með fuglum til landsins eða dreifist meðal villtra fugla og alifugla. Hann sagði að í bígerð væri að flytja til landsins færanlegar rannsóknarstofur sem anni og fullnægi öllum öryggiskröfum. Enn er ekki vitað á hvaða stigi sú vinna er.

Í dag sendi Landbúnaðarstofnun frá sér formlega fréttatilkynningu um mat á stöðunni og tillögu að áhættustigum. Áhættunni er skipt í áhættustig 1 til 3 um fuglaflensu, eftir útbreiðslustigi meðal fugla og öðru sem lýtur að smiti innan og milli dýrategunda. Auðvitað veltir maður fyrir sér hvernig hægt er að standa að framkvæmdarhliðinni á slíkum aðgerðum sem lagðar eru til við hvert áhættustig og hvernig við erum í raun í stakk búin til að fylgja þeim öryggiskröfum eftir.

Vonandi reynir aldrei á það en þó er óhjákvæmilegt að spyrja um greiningu á áhættustigum ef veikin greinist í fólki. Hvernig yrðu þau áhættustig flokkuð? Hvað yrði þar lagt til grundvallar og hvaða aðgerðir gætu þá tilheyrt hverju áhættustigi? Hvernig erum við undir það búin að uppfylla þær kröfur um aðgerðir sem þá yrði að grípa til?

Ég hef þess vegna, frú forseti, leyft mér að leggja eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra, en málinu í heild sinni virðist mér stýrt af hálfu heilbrigðisráðuneytisins:

1. Hvernig er háttað fræðslu og upplýsingagjöf til almennings um varnir og viðbrögð gagnvart fuglaflensu ef hún bærist til landsins? Við vitum að með vorinu koma farfuglarnir. Hvernig á almenningur að bregðast og umgangast fugla, t.d. ef fuglarnir sjást veikir? Einnig hefur verið tekið upp samstarf og samræming viðbragða bænda, starfsfólks í heilbrigðisþjónustu og matvælavinnslu, ef veikin bærist til landsins. En þetta væru þeir fyrstu sem kæmu að slíkum málum.

2. Hvernig verður háttað eftirliti og rannsóknum á heilsu villtra fugla í landinu, ekki síst hjá farfuglum? Hvernig skal koma leiðbeiningum til fólks á öllum aldri, t.d. í skólunum, og er búið að tryggja nægilegt fjármagn eða afl til eftirlits og rannsókna með veikinni?

3. Hvernig hyggjast stjórnvöld haga samstarfi og samráði við Alþingi og hlutaðeigandi þingnefndir um viðbúnað og aðgerðir stjórnvalda sem grípa þarf til, annars vegar til að fylgjast með því hvort veikin berist til landsins og hins vegar um aðgerðir ef veikin yrði staðfest hér?