132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Áætlun og aðgerðir um varnir gegn fuglaflensu.

[15:40]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. 8. þm. Norðvest. beinir til mín nokkrum spurningum um nokkra þætti varðandi viðbúnað okkar Íslendinga við þeim möguleika að fuglaflensa berist til landsins. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka málið upp á þessum vettvangi.

Í árslok 2003 hófst inflúensufaraldur í fuglum í Suðaustur-Asíu. Þessi fuglainflúensa leiddi í nokkrum tilvikum til sýkinga mönnum með hárri dánartíðni. Íslensk heilbrigðisyfirvöld ákváðu snemma á árinu 2004 að kaupa inflúensulyf í nokkru magni vegna ótta manna við að veiran gæti stökkbreyst og borist manna á milli, sem gæti orðið undanfari heimsfaraldurs inflúensu.

Þegar í ljós kom að ekki tækist að ráða niðurlögum fuglainflúensunnar strax ákváðu heilbrigðisyfirvöld að auka innkaup á inflúensulyfjum á árinu 2005. Í lok þess árs voru til í landinu um 89 þús. meðferðarskammtar. Heilbrigðisyfirvöld hafa frá því að fuglainflúensan fór að gera fyrir alvöru vart við sig í Asíu gripið til margvíslegra aðgerða til að bregðast við fuglaflensunni og hugsanlegum heimsfaraldri inflúensusmits.

Ég vil undirstrika og biðja menn að hafa hugfast að greina verður milli smits í fuglum sem gæti við tilteknar aðstæður borist í menn og heimsfaraldurs þar sem smit berst frá manni til manns. Þetta eru tvö mál sem okkur ber að forðast að blanda saman.

Hv. þingmaður spyr um varnir og viðbrögð gagnvart fuglaflensu ef hún bærist til landsins. Því er til að svara að sóttvarnalæknir og Landbúnaðarstofnun hafa nána samvinnu um upplýsingagjöf til almennings varðandi fuglaflensu, berist hún til landsins. Starfandi er sérstök samstarfsnefnd um sóttvarnir sem hittist reglulega, a.m.k. tvisvar í mánuði. Þar situr m.a. fulltrúi Landbúnaðarstofnunar og sóttvarnalæknir. Samráð þessara beggja sviða er því mjög náið og samhæft. Sóttvarnalæknir hefur birt spurningar og svör um málið á heimasíðu landlæknisembættisins og sambærilegar upplýsingar munu birtast á heimasíðu Landbúnaðarstofnunar.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður um viðbúnaðarstig stjórnvalda vegna fuglaflensu og hvaða forsendur séu þar lagðar til grundvallar. Því er til að svara að viðbrögð við fuglaflensu eru í höndum Landbúnaðarstofnunar sem heldur t.d. fræðslufundi með alifuglabændum um þessar mundir til að upplýsa um alla þætti málsins, þar á meðal varnir.

Þá er spurt hvort ekki yrði tekið upp samstarf og samræming viðbragða bænda, starfsfólk í heilbrigðisþjónustu og matvælavinnslu, ef fuglaflensa bærist til landsins. Í heilbrigðisþjónustunni eru menn viðbúnir og munu bregðast við ef svo ólíklega vildi til að nokkur maður smitaðist af fuglaflensu. Hugað verður sérstaklega að heilbrigði þeirra sem sinna alifuglarækt ef fuglaflensa best til landsins. Sóttvarnalæknir og ríkislögreglustjóri standa að samræmdum viðbrögðum við hugsanlegum heimsfaraldri inflúensu í mönnum.

Í fjórða lagi spyr hv. þingmaður um eftirlit og rannsóknir á heilsu villtra fugla í landinu, ekki síst hjá farfuglum. Því er til að svara að Landbúnaðarstofnun hefur með höndum rannsóknir á farfuglum og alifuglum í landinu. Könnun á inflúensusmiti í fuglum er þegar hafin og rætt er um að bæta rannsóknaraðstöðu til dýrarannsókna í samvinnu við Keldur.

Í fimmta lagi er spurt hvort og hvernig stjórnvöld hyggist haga samstarfi við Alþingi og hlutaðeigandi þingnefndir um viðbúnað og aðgerðir stjórnvalda sem grípa þarf til, annars vegar til að fylgjast með því hvort veikin berst til landsins og hins vegar ef veikin yrði staðfest hér. Íslensk stjórnvöld munu að sjálfsögðu upplýsa Alþingi og hlutaðeigandi þingnefndir um aðgerðir sem lúta að fuglaflensu annars vegar og hugsanlegum heimsfaraldri inflúensu í mönnum eftir því sem tilefni gefst til. Ég get sagt það fyrir hönd ráðuneytis míns að við erum tilbúin að mæta fyrir þingið hvenær sem er varðandi þetta mál.

Virðulegi forseti. Ég vona að þeim spurningum sem hv. 8. þm. Norðvest. beindi til mín sé svarað með þessu. Verkefnin skarast að vísu töluvert við landbúnaðarráðuneytið en Landbúnaðarstofnun hefur verið með í ráðum um undirbúning þessara svara. Ég er reyndar starfandi landbúnaðarráðherra í dag svo að það kemur kannski ekki að sök.