132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Áætlun og aðgerðir um varnir gegn fuglaflensu.

[15:50]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það var mjög gaman að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra tala hér, eins og hann sannarlega hefur vit og þekkingu til, hann er jú menntaður dýralæknir. En mér fannst hann láta vísindamanninn í sér ganga fulllangt þegar hann fór að hugsa upphátt um þá athyglisverðu tilraun sem framkvæma mætti með því að fylgjast með því hvað gerðist ef þessi veira stökkbreyttist. Það er tilraun sem ég mundi ekki hafa gaman af að verða þátttakandi í. Þrátt fyrir það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að við fylgjumst með þessu máli af yfirvegun, að við höfum varann á og að hér verði ekki æst til neinnar histeríu eða skelfingar hjá almenningi.

Ég hef svolítið velt fyrir mér forvörnum í þessu máli. Hér hefur verið talað um farfugla og að smit geti borist til landsins með farfuglum. Ísland er eyja í Norður-Atlantshafi og mjög mikilvæg varpstöð margra tegunda farfugla sem fara, eins og réttilega hefur verið bent á, um Vestur-Evrópu og Bretlandseyjar. Ég hef velt því fyrir mér hvort ekki væri full ástæða til þess að fara út í sérstakar aðgerðir til að fylgjast einmitt með þessum fuglum þegar þeir koma til landsins, að komið yrði upp eins konar eftirliti, til að mynda við suðurströndina frá svæðinu austan af Hornafirði og síðan vestur um, þar sem sýni yrðu tekin úr fuglum, bara til að hafa varann á okkur, að farið yrði út í það að stunda slíkar rannsóknir. Að sjálfsögðu kallar þetta á fjármagn, það kallar líka á mannskap og ákveðinn viðbúnað. Það hefði verið gaman að fá upplýsingar um það hjá hæstv. heilbrigðisráðherra og núverandi landbúnaðarráðherra hvort fyrirhugaðar séu einhverjar aðgerðir af þessu tagi og þá undir embætti yfirdýralæknis.