132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Áætlun og aðgerðir um varnir gegn fuglaflensu.

[15:52]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin.

Fyrir skömmu barst mér svar við fyrirspurn minni til hæstv. landbúnaðarráðherra um viðbrögð og varnir embættis yfirdýrsalæknis gegn fuglaflensu. Það má nú vera ljóst að miðað við útbreiðslu smitaðra fugla í Evrópu er það ekki spurning um hvort heldur miklu frekar hvenær smitaðir farfuglar koma til landsins. Samræmd viðbragðsáætlun landlæknis, sóttvarnalæknis og yfirdýralæknis þarf því að liggja fyrir hið fyrsta svo gera megi viðhlítandi ráðstafanir til varnar alifuglabúum, til réttrar umgengni við hræ af villtum fuglum og síðast en ekki síst að viðbragðsáætlun og viðbúnaður heilbrigðisstofnana sé samkvæmt ýtrustu tilmælum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Hæstv. forseti. Við fjárlagaumræðuna í haust gagnrýndi ég að ekki væri sett fjármagn í að koma upp öryggisrannsóknastofu eða P3-aðstöðu vegna yfirvofandi hættu á fuglaflensu. Það var ljóst að þörfin var brýn og ekki hægt að komast hjá því að bæta núverandi aðstöðu að Keldum til að greina sýni úr dýrum. Fjármagn hefur nú fengist til að koma upp bráðabirgðaaðstöðu ásamt því að undirbúa innkaup á öðrum nauðsynlegum búnaði. Flensubólusetning að hausti er einn af mörgum varnarþáttum í heimsfaraldri og hvet ég hæstv. heilbrigðisráðherra til að athuga þann kost gaumgæfilega svo bregðast megi við auknum kostnaði vegna kaupa bóluefnis og við bólusetningar og eins til að draga úr kostnaðarþátttöku markhópa í þeirri bólusetningarherferð.

Það er mikilvægt að Alþingi sé upplýst um stöðu mála hverju sinni þar til hættuástandi verður aflýst og þá eiga heilbrigðis- og landbúnaðarnefnd að fjalla sameiginlega um málið fyrir hönd þingsins hið fyrsta.