132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Áætlun og aðgerðir um varnir gegn fuglaflensu.

[15:56]
Hlusta

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ef einhvern tíma er nauðsynlegt á Alþingi Íslendinga að talað sé hófstillt og faglega, æsingalaust og upplýst, þá er það í umræðu um fuglaflensu. Hættan er ekki talin mjög mikil hér á landi en það á að sjálfsögðu ekki við ef veiran stökkbreytist, eins og hefur komið fram hér. Við vitum líka að talið er líklegt að íslenskir fuglar, stofnar sem fljúga á suðlægar slóðir að hausti, gætu hafa smitast. Það á einnig við um endur, gæsir og álftir sem dveljast á Bretlandseyjum, Írlandi og við norðurstrendur Þýskalands. Sérfræðingar, sem haft hefur verið samband við, telja að við stöndum í rauninni mjög vel, smithætta frá fuglum er mun minni hér en í mörgum öðrum löndum þar sem stór hluti íbúa er stöðugt að meðhöndla lifandi fugla. Það á t.d. við um Tyrkland og er kannski ekki ástæðulausu að veikin kom fyrst upp þar. Við erum með góða sjúkrahúsþjónustu og auðvelt er að einangra fólk, en ef um stökkbreytingu verður að ræða erum við að sjálfsögðu að tala um allt annan hlut, þá erum við að tala um heimsfaraldur. Þetta eru því tvö aðskilin mál eins og komið hefur fram.

Ég tek líka undir það að mjög mikilvægt er að við höfum aðstöðu til greiningar á sýnum hér á landi. Heilbrigðisnefnd fór á fund með landlækni og þar var málið aðeins kynnt fyrir nefndinni. Það samráð þarf að halda áfram og er mjög brýnt að fagnefndir þingsins, bæði landbúnaðarnefnd og heilbrigðisnefnd, séu viðbúnar og geti verið í startholunum til að ræða allar hreyfingar á þessu máli. Við eigum að treysta á þetta samráð og þá áætlun sem er í gangi. Ég vil minna á mjög góðan vef sem heitir Spurt og svarað um fuglaflensu. Vefurinn er á vegum sóttvarnalæknis og þar eru mjög skýrar og góðar upplýsingar. Aðalatriðið er að við sköpum ekki óþarfa ótta en höldum samt öllu til haga og séum hvergi bangin yfir því sem við þurfum að mæta.