132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Áætlun og aðgerðir um varnir gegn fuglaflensu.

[16:00]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu sem ég tel vera þarfa. Menn hafa talað um samhæfingu ýmissa stofnana og ég er ekki frá því að þessi umræða sé einnig liður í því að ná fram samhæfingu stofnana. Hér koma menn frá ólíkum stofnunum, sumum nýjum eins og Landbúnaðarstofnun, og leggja fram gögn sín fyrir hæstv. ráðherra. Það hafa verið fluttar hér mjög athyglisverðar ræður, t.d. fór hæstv. fjármálaráðherra mikinn í tilraunagleði sinni sem ég tel reyndar að beri að gjalda varhuga við. Það verður þó að segjast eins og er að hann hefur meira vita á þessu en þegar hann ræddi um hækkun skattanna fyrr í dag. Þarna var hann greinilega á heimavelli.

Það er í sjálfu sér mjög gott að taka þetta mál alvarlega. Þó svo að við gerum ráð fyrir hinu besta þá er ágætt að kerfið geri ráð fyrir hinu versta, það er ágætt að gera greinarmun á því í umræðunni að hafa hana hófstillta en þá verður kerfið að gera ráð fyrir hinu versta. Þetta er í sjálfu sér góð æfing fyrir kerfið, nýjar stofnanir samhæfa viðbrögð við erfiðum málum sem geta komið upp ef veiran stökkbreytist og getur borist á milli manna.