132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Áætlun og aðgerðir um varnir gegn fuglaflensu.

[16:02]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu, mjög faglega og hófstillta umræðu um þetta mál sem er í sjálfu sér stórmál og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans og hvernig hann hefur komið inn á þau mál sem ég bar hér fram.

Það er mjög mikilvægt að umræðan sé hófstillt en hún þarf líka að vera mjög fagleg og við þurfum að eiga nægar upplýsingar, næga vitneskju um málið á hverju stigi til þess að geta brugðist við eða líka vakið og haldið trausti almennings. Við megum búast við því að fari fram sem nú horfir muni umræðan um veikina magnast, sérstaklega í löndunum í kringum okkur og að það verði enn harðara áreiti á okkur hér. Þess vegna legg ég aukna áherslu á upplýsingu og fræðslu um málið. Þó að það sé gott að setja mál inn á heimasíður viðkomandi stofnana og fagaðila tel ég að upplýsingar til almennings, til barna og unglinga og allra eigi að vera tiltækar í einföldu og skýru formi því að þetta er í góðu lagi svo lengi sem ekkert kemur upp á og við skulum vona að það verði æ svo.

Við vitum t.d. að ef veikin berst hingað verður hún búin að stigmagnast í löndunum í kringum okkur. Höfum við þá afl til þess að takast á við nauðsynlegar rannsóknir, nauðsynlegt eftirlit þegar við getum ekki sent sýni til rannsókna erlendis? Við verðum að treysta á okkur sjálf í rannsóknum, í eftirliti, jafnvel í lyfjaframleiðslu, sem var ein af tillögum sem nefndin gaf ríkisstjórninni.

Ég ítreka það því við hæstv. ráðherra að (Forseti hringir.) halda þessum hlutum mjög vel saman og til haga og halda þinginu, nefndum þess og almenningi og öllum vel upplýstum um hvert stig.