132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[16:07]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég legg hér fram til umræðu skýrslu um raforkumálefni, sem 348. mál þingsins á þskj. 382 sem dreift var til hv. þingmanna í nóvember á síðasta ári. Skýrslan er frumsmíð á þessu sviði en samkvæmt 39. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, skal ráðherra leggja slíka skýrslu fyrir Alþingi á tveggja ára fresti.

Í samræmi við ákvæði raforkulaga er í skýrslunni m.a. fjallað um yfirlit um sölu og notkun raforku sl. fjögur ár, raforkuþörf og yfirlit um líklega þróun til lengri tíma á grundvelli raforkuspár og áætlana um orkufrekan iðnað og aðra starfsemi sem raforkuspá tekur ekki til, rannsóknir orkulinda og undirbúning þeirra til raforkuvinnslu, raforkuvinnslu með hliðsjón af raforkuþörf og öryggi raforkukerfisins, styrkingu flutningskerfisins í samræmi við aukna raforkuþörf, gæði raforku, m.a. með hliðsjón af öryggi afhendingar, þjóðhagslega þýðingu áætlaðra framkvæmda á sviði raforkumála og áhrif þeirra á atvinnulíf og byggð í landinu.

Hæstv. forseti. Örugg framleiðsla orku, flutningur og dreifing hennar eru meðal þeirra grunnþátta sem samfélag okkar byggir á. Ekki eru nema örfáir áratugir síðan allir landsmenn fengu tryggt aðgengi að raforku og er nú svo komið að við búum við einna mesta öryggi í framboði á hvers kyns orku meðal þjóða heims. Á síðustu árum hafa orðið algjör umskipti í orkunotkun þjóðarinnar og er nú orkunotkun á íbúa hér á landi með því mesta sem þekkist í heiminum. Er þessi mikla notkun m.a. til komin vegna þess að Ísland býr yfir auðlegð í formi endurnýjanlegra orkulinda sem hafa verið nýttar á hagkvæman hátt landsmönnum til heilla. Er mörgum þjóðum öfundarefni að 99,95% af raforkunotkun Íslendinga kemur frá þessum endurnýjanlegu orkulindum og hafa þær þó aðeins verið nýttar að takmörkuðu leyti. Svipuðum árangri höfum við náð við upphitun húsnæðis hér á landi en 90% húsnæðis er hitað upp með jarðvarma og yfir 9% notast við rafhitun. Skynsamleg nýting orkulindanna mun því um ókomin ár áfram standa undir aukinni velferð þjóðarinnar.

Í skýrslu þeirri sem hér er lögð fram er leitast við að veita ítarlegar upplýsingar um þróun raforkumála hérlendis. Í 1. kafla skýrslunnar er fjallað um þróun og skipulag raforkumarkaðar hér á landi sem og þróun löggjafar um raforkumál með áherslu á umfjöllun um ný raforkulög sem Alþingi samþykkti í mars 2003. Almenn rafvæðing landsins hófst á fjórða áratug síðustu aldar þegar reistar voru stærri virkjanir, Ljósafossstöð og Laxárstöð I ásamt tilheyrandi flutningslínum frá þessum virkjunum til stærstu bæjarfélaganna, Reykjavíkur og Akureyrar. Minni virkjanir voru einnig reistar víða til að anna gífurlegri almennri eftirspurn eftir raforku á þessum árum en engin innbyrðis tenging var þó á milli einstakra landshluta.

Grunnurinn að baki rafvæðingar landsbyggðarinnar voru fyrstu lög er náðu til allra þátta raforkumála í landinu, raforkulögin frá 1946. Þar var mörkuð sú stefna að ríkið tæki að sér að annast vinnslu raforku til almennings, dreifingu rafmagns milli héraða. Á árinu 1965 urðu þáttaskil í uppbyggingu raforkukerfis landsins. Með stofnun Landsvirkjunar það ár var farið inn á þá braut að reisa stærri virkjanir en áður hafði verið ráðist í. Með því móti var unnt að nýta raforkuna jöfnum höndum fyrir stóriðju og almenna notkun og færa sér þannig í nyt hagkvæmni stærðarinnar. Raforkuflutningskerfi landsins hefur á síðustu áratugum verið byggt upp til að tryggja öruggan flutning raforku til allra landsmanna og til að anna orkuþörf stóriðjufyrirtækja. Af þessum sökum hefur verið unnt að ráðast í hagkvæmar virkjanir fjarri þeim svæðum þar sem raforkunotkunin er mest en það hefur síðan skilað sér í hagkvæmu raforkukerfi.

Skipulag raforkumála hér á landi hefur verið á þann veg að fyrirtæki sem vinna, dreifa og selja orku eru nær alfarið í opinberri eigu. Ýmist er hér um að ræða fyrirtæki sem að öllu leyti eru í eigu ríkisins eða sveitarfélaga eða fyrirtæki sem eru í sameign þessara aðila. Hið sama gildir um rannsóknastofnanir á þessu sviði þó svo að þar hafi einkaaðilar haslað sér völl í nokkrum mæli á undanförnum árum.

Í 1. kafla skýrslunnar er fjallað ítarlega um hin nýju raforkulög frá árinu 2003 og hvaða breytingar þau höfðu í för með sér. Þá er í lok kaflans fjallað um alþjóðlegt samstarf og samanburð raforkukerfis okkar og annarra Norðurlanda.

Í 2. kafla er fjallað um þróun raforkuverðs með sérstaka áherslu á breytingar sem urðu um áramótin 2004–2005 þegar nýskipan raforkumála kom til framkvæmda. Þessi nýskipan ein og sér gefur ekki almennt tilefni til umtalsverðra breytinga á raforkuverði en þó verða nokkrar verðbreytingar hjá einstökum notendum. Samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun má þannig rekja um 2–4% af hækkun á raunverði rafmagns suðvestan lands til breytingarinnar en með sama hætti hefur hún leitt til lækkunar á veitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins, Rariks, einkum í þéttbýli. Með nýjum raforkulögum er kostnaður við dreifingu í þéttbýli og dreifbýli aðskilinn samhliða því að ríkissjóður greiðir niður dreifingu á raforku í dreifbýlinu. Verð á raforku til almennra notenda lækkaði almennt um áramótin 2004–2005 á þéttbýlissvæðum Rariks og Orkubús Vestfjarða en hækkaði aftur á móti hjá Hitaveitu Suðurnesja, Orkuveitu Reykjavíkur, Norðurorku og Rarik í dreifbýli.

Verð á raforku til aflmældra notenda, sem eru flest stærri fyrirtæki, lækkaði mikið hjá Rarik, bæði í dreifbýli og þéttbýli, en mesta hækkunin var hjá Orkubúi Vestfjarða í dreifbýli og Hitaveitu Suðurnesja á Suðurnesjum og í Hafnarfirði. Minni breytingar urðu hjá notendum hjá öðrum veitum. Miðað við leiðréttingu á grundvelli neysluverðsvísitölu hefur smásöluverð á raforku samkvæmt almennum taxta hjá Rarik og Orkuveitu Reykjavíkur lækkað nokkuð frá 1991 til 2005.

Raforka til húshitunar hefur um árabil verið niðurgreidd af opinberu fé og árin 1983–2004 voru heildarútgjöld ríkissjóðs vegna niðurgreiðslna um 15 milljarðar kr. á núvirði. Lög um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar voru sett á Alþingi vorið 2002 og eftirlit Orkustofnunar með framkvæmd laganna leiddu til lækkunar niðurgreiðslna til húshitunar árin 2003–2004. Á árinu 2004 voru aftur á móti gerðar breytingar á lögunum sem rýmkuðu heimildir einstaklinga og félagasamtaka til niðurgreiðslna en á fjárlögum ársins 2005 eru áætlaðar 998 millj. kr. úr ríkissjóði til niðurgreiðslna vegna húshitunar og annarra verkefna sem tengjast þeim.

Flutningur og dreifing á raforku eru nú verðlögð óháð því til hvers hún er notuð og á gjaldskrá að vera sem næst raunkostnaði við þessa liði. Þetta hefur haft í för með sér nokkrar breytingar á raforkutöxtum bæði til hækkunar og lækkunar en sérstaklega hafa verið í umræðu hækkanir á raforku til húshitunar og ótryggðri orku til fyrirtækja. Tekið hefur verið á þessum vanda með ýmsu móti. Þannig voru niðurgreiðslur til húshitunar hækkaðar á árinu 2005 og einnig var hugað að orkusparnaðaraðgerðum og voru sett af stað nokkur verkefni á sviði orkuhagkvæmni að frumkvæði Orkustofnunar og iðnaðarráðuneytisins. Þá var árið 2005 stofnað svonefnt Orkusetur sem hefur það markmið að auka orkuhagkvæmni og nýtingu annarra orkugjafa þar sem það reynist hagkvæmt.

Í 3. kafla skýrslunnar er yfirlit um sölu og notkun raforku síðastliðin ár. Þar kemur fram að raforkunotkun Íslendinga hefur aukist mikið frá því að rafvæðing landsins hófst á fyrri hluta síðustu aldar. Árleg aukning á almennri raforkunotkun var um 7% á sjötta til áttunda áratug aldarinnar en í lok áttunda áratugarins fór vöxturinn að minnka og frá árinu 1996 hefur aukningin verið rúmlega 3% á ári. Sala á raforku til stóriðju hefur aukist mun meira en almenn raforkusala og á tímabili 1996–2003 jókst raforkusala til stóriðju um tæplega 115% eða að meðaltali um rúmlega 16% á ári. Stóriðjunotkunin stóð hins vegar í stað árið 2004. Raforkunotkun stóriðju var um 50% af heildarnotkun árið 1996 en hefur verið að aukast síðan þá. Þessi þróun mun halda áfram á næstu árum því gert er ráð fyrir að stóriðjan verði með um 78% af heildarnotkun árið 2008. Þá hefur raforkunotkun til heimila einnig aukist verulega á undanförnum árum og þá aðallega vegna aukinnar tækjaeignar heimilanna. Á árabilinu 1995–2004 nam þessi aukning raforkunotkunar um 26% sem er verulega meiri hækkun en sem nemur fólksfjölgun. Samkvæmt nýlegri orkuspá er gert ráð fyrir samsvarandi aukningu í raforkunotkun heimila á næsta áratug.

Hæstv. forseti. Í 4. kafla skýrslunnar er fjallað um raforkuvinnslu með hliðsjón af raforkuþörf og öryggi raforkukerfisins auk umfjöllunar um styrkingu flutningskerfisins í samræmi við aukna raforkuþörf næstu árin. Gert er ráð fyrir að heildarraforkuþörf aukist mikið árin 2005–2008, einkum vegna umsaminnar sölu til nýrra eða stækkaðra álvera en áætlað er að raforkuþörf stóriðju aukist um tæplega 130% á þessu tímabili. Sú mikla aukning skýrist annars vegar af stækkun Norðuráls á Grundartanga og hins vegar af hinu nýja álveri Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði sem tekur til starfa árið 2007 og verður þá stærsti raforkunotandi landsins. Þessari auknu raforkuþörf verður annars vegar mætt með nýjum virkjunum og hins vegar með stækkun núverandi virkjana. Það er aðallega um að ræða virkjanir á Kárahnjúkum, Nesjavöllum, Hellisheiði, Reykjanesi og við Lagarfoss.

Vegna aukinnar raforkuvinnslu og raforkunotkunar næstu árin þarf flutningsfyrirtækið Landsnet að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir til að styrkja flutningskerfi raforku. Í áætlun um Landsnet frá því í lok september 2005 er gert ráð fyrir að heildarkostnaður við framkvæmdir vegna uppbyggingar og þróunar flutningskerfisins verði um 5,7 milljarðar kr. árið 2006, um 440 millj. kr. árið 2007 og um 380 millj. kr. árið 2008.

Í 5. kafla skýrslunnar er fjallað um gæði raforku og afhendingaröryggi út frá upplýsingum um fjölda fyrirvaralausra bilana í vinnslu- og flutningskerfi Landsvirkjunar og skerðingu á orkuafhendingu hjá dreifiveitum. Veðurfar hefur mikil áhrif á þá mælikvarða sem notaðir eru til að meta þessa þætti en almennt séð hafa gæði raforku og afhendingaröryggi verið að aukast undanfarin ár. Niðurstöður úr alþjóðlegri samanburðargreiningu sýna að flutningsfyrirtækið Landsnet er í hópi fyrirtækja þar sem saman fer lágt kostnaðarstig og hátt þjónustustig sem staðfestir að uppbygging og rekstur flutningskerfisins hér á landi er í fremstu röð meðal þeirra landa sem tóku þátt í samanburðinum.

6. kafli skýrslunnar fjallar um rannsóknir á orkulindun og undirbúningi á virkjun þeirra til raforkuvinnslu. Undanfarin fjögur ár hafa verið mikil umsvif í framkvæmdum og rannsóknum á orkulindum landsins og skýrist það einkum af raforkusölu vegna stækkunar Norðuráls í Hvalfirði um 90 þúsund tonna ársframleiðslu í 220 þúsund tonn og byggingar 322 þúsund tonna álvers Fjarðaáls á Reyðarfirði. Gefin hafa verið út leyfi til rannsókna á Hellisheiðarsvæði, vesturhluta Kröflusvæðis, við Þeistareyki og í Köldukvíslarbotnum á Hágöngusvæðinu. Þá hefur Hitaveita Suðurnesja fengið nýtingarleyfi og bygging 100 megavatta virkjunar á Reykjanesi er langt komin. Virkjunarleyfi hafa verið gefin út fyrir Búðarhálsvirkjun, Kárahnjúkavirkjun, Nesjavallavirkjun, Hellisheiðarvirkjun og Lagarfossvirkjun.

Á árinu 1999 var skipuð sérstök verkefnisstjórn til að vinna að gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Niðurstöður 1. áfanga voru kynntar í skýrslu sem út kom í nóvember 2003 en niðurstöðurnar koma fram í röðun kosta, annars vegar eftir hagkvæmni og almennum efnahagslegum áhrifum og hins vegar miðað við önnur sjónarmið t.d. náttúrufarsgildi, menningarminjar, útivistargildi, áhrif á ferðamennsku og hlunnindi. Á árinu 2004 var hafinn undirbúningur að 2. áfanga rammaáætlunar en þar verður lögð áhersla á að undirbúa fleiri virkjunarkosti til mats og bæta úr annmörkum ýmissa kosta sem teknir voru fyrir í 1. áfanga. Sérstök áhersla verður lögð á að afla heildstæðra gagna um nýtanleg háhitasvæði, bæði út frá vinnslu- og verndarsjónarmiðum.

Í 7. kafla er fjallað um þjóðhagslega þýðingu framkvæmda á sviði raforkumála og áhrif þeirra á atvinnulíf og byggð í landinu. Áætluð fjárfesting í orkuverum og stóriðju hér á landi árin 2001–2009 nemur alls um 265 milljörðum kr. en þar er um að ræða stækkun álvers Norðuráls á Grundartanga og byggingu álvers í eigu Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði, sem og framkvæmdir við ný eða stækkuð raforkuver til að anna aukinni raforkuþörf.

Ætla má að árin 2003–2006 tengist að meðaltali 6% vinnandi manna hér á landi stóriðjuframkvæmdum. Þriðjungur vinnur að framkvæmdunum sjálfum en aðrir vinna við aðföng eða þjónustu sem tengist framkvæmdum óbeint. Ef tekið er mið af spá Seðlabanka um framleiðsluspennu á þessum árum virðist ekki fjarri lagi að álykta að atvinna sé um 2% meiri að jafnaði þessi ár en vænta hefði mátt í meðalári. Samkvæmt mælingum Vinnumálastofnunar var atvinnuleysi á Íslandi 1,4% í september 2005 sem er um 42% lækkun frá september 2004 og atvinnuleysi hefur ekki verið minna í einstökum mánuðum síðan í október 2001.

Hagvöxtur hefur verið mikill síðastliðin ár og sú þróun heldur áfram á næstunni. Hagvöxtur var 3,6% árið 2003, 6,2% árið 2004 og í endurskoðaðri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins frá því í apríl 2005 er gert ráð fyrir nær 6% hagvexti árið 2005, lítið eitt lægri hagvexti árið 2006 og að hagvöxtur minnki síðan niður í 2,4% árið 2007. Samkvæmt spánni er meðalhagvöxtur áranna 2003–2006 ríflega 5%, en það er líklega um 2% umfram það sem búast má við í meðalári. Ársverðbólgan fór yfir þolmörk Seðlabanka í september en mestalla verðbólguna má tengja hækkun húsnæðisverðs og fleira í þeim dúr.

Stóriðjuframkvæmdirnar leiða til mikils innstreymis erlends fjármagns og því má búast við að landsframleiðsla verði meiri vegna framkvæmdanna en ella hefði orðið. Þegar framkvæmdum verður lokið á Austurlandi má gera ráð fyrir að atvinnulíf hafi styrkst mjög á svæðinu. Búast má við því að hvers kyns þjónusta haldi áfram að eflast í Fjarðabyggð í mörg ár eftir að álver hefur þar rekstur og líklegt er að ársstörfum í sveitarfélaginu fjölgi á næstu 15–25 árum um nálægt eitt þúsund frá því sem var áður en framkvæmdirnar við álverið hófust. Stækkun Norðuráls mun einnig hafa mjög jákvæð áhrif á atvinnulíf ekki síst á Vesturlandi.

Hæstv. forseti. Skýrsla þessi sem nú kemur fyrir sjónir hv. þingmanna er eins og fram hefur komið frumsmíð á þessu sviði. Af þeim sökum er skýrslan einnig að nokkru leyti víðtækari en raforkulögin gera kröfu um. Skýrslunni er ætlað að veita þingmönnum og almenningi ítarlegar upplýsingar um allt það helsta sem viðkemur raforkumálefnum og þróun þeirra hér á landi í fortíð, nútíð og framtíð. Það er von mín að mikill fengur verði að skýrslunni og að á grunni hennar geti farið fram málefnaleg umræða um þróun raforkumála hérlendis.