132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[16:27]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það getur vel verið að við séum ekki sammála, ég og hv. þingmaður, hvort það er varhugavert eða ekki. Ég held að aðalatriðið sé að fá greitt fyrir þá raforku sem seld er stórfyrirtækjum. En hins vegar er það ekki rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni sem fullyrðing að raforkuverð hafi hækkað heilmikið, eins og hann orðaði það. Við getum bara vitnað til vísitölunnar, neysluverðsvísitölunnar, hvernig hún hefur þróast og hvernig rafmagnsverðið hefur þróast. Eins og ég hef áður látið koma fram hérna er raforkuverðið að hækka minna en neysluverðsvísitalan.

Síðan vil ég ítreka við hv. þingmann að það er ekki samband á milli sölu raforku til almennings og sölu raforku til stóriðju. Lögum samkvæmt er óheimilt að blanda þessu saman. Það bitnar því ekki á nokkurn hátt á neytendum að við byggjum stóriðju og seljum til stóriðju. Það er miklu frekar neytendum í hag vegna þess að þannig erum við með meira afhendingaröryggi.