132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[17:04]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þingmaður geri kannski aðeins of mikið úr hlutverki stjórnvalda á þessu sviði. Auðvitað gerist þetta á markaðnum. Þegar hv. þingmaður talar um að setja upp fyrirtæki þá er ríkið ekki að setja upp nein fyrirtæki. Málið snýst um að fyrirtæki óska eftir að setja niður þessa starfsemi og fjárfesta á Íslandi. Geri þau það er þeim kunnugt um að ríkið ætlar ekki að skaffa þeim útblásturskvóta. Við höfum komið heiðarlega fram gagnvart þessum fyrirtækjum hvað það snertir. Við höfum útblásturskvóta á þessu tímabili. Hvað gerist eftir 2012 er óljóst. Ég læt að því liggja að óskað gæti verið eftir meiri kvótum.

En mig langar líka að nefna þetta með framleiðslu á áli hérna á Íslandi. Miðað við þau álver sem eru í byggingu í heiminum í dag nota 20,5% vatnsafl, 48,2% jarðgas og 31,3% kol, þ.e. ef við tökum Ísland ekki með. Ef við tökum Ísland hins vegar með þ.e. sem sagt Fjarðarál og Norðurál þá er vatnsaflið með 32,2%, jarðgasið 41,1% og kolin 26,7%. Þetta er ekki glæsileg mynd. Eigum við ekki að gera ráð fyrir því, hv. þingmaður, að þörf sé fyrir ál? Er það ekki bara markaðurinn sem kallar á meira ál? Mér finnst ástæða til að framleiða eitthvað af því á Íslandi með það í huga að nota endurnýjanlega orku.