132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[17:06]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég efast ekkert um að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin eru heiðarleg gagnvart þeim fyrirtækjum sem þau tala við. En ég kalla eftir því að menn sýni þjóðinni líka hreinskilni og segi hve langt þeir ætla að ganga. Mér hefur fundist vanta svolítið upp á það. Það er erfitt fyrir fólk að skilja í hvað stefnir hvað þessi málefni varðar. Mér finnst það aðeins skýrara núna.

Hæstv. ráðherra dreymir greinilega um að fyrirtækin sem skoða möguleikana hérna séu tilbúin að taka áhættuna. En það er ekki nóg. Einhverja stefnu hafa stjórnvöld í landinu. Hvað vilja menn ganga langt í þessu? Ég hlýt að skilja það þannig að niðurstaða ríkisstjórnarinnar sé að menn vilji halda áfram a.m.k. hvað varðar þá möguleika sem eru upp á borðinu núna og ef fyrirtækin geti skaffað mengunarkvóta þá skuli gengið alla leið í þessum efnum. Þannig skil ég þetta.

Mér finnst að ríkisstjórnin og ráðherrarnir séu kannski komnir lengra heldur en æskilegt er og þörf er á með að taka þann bagga á sínar herðar að framleiða ál fyrir heiminn. Mér dettur helst í hug gamansaga af presti sem hitti konu sem hafði orðið býsna oft ólétt. Hann hafði á orði við hana að hún væri ólétt og hvort þetta væri ekki orðið dálítið erfitt og mörg börnin. Konan sneri sér hvasst að honum og sagði: Stendur ekki í Biblíunni að vér skulum uppfylla jörðina? Það stendur hvergi í Biblíunni, sagði prestur, að þér eigið að gera það ein.